Meint vanhæfi á borð innviðaráðuneytisins

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Samþykkt var á fundi borgarstjórnar í kvöld að leita til innviðaráðuneytisins til að fá álit þess á því hvort Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sé hæfur til að sitja í menningar- og íþróttaráði Reykjavíkurborgar. 

Tekist hefur verið á um hvort Björn sé hæfur til að sitja í ráðinu vegna þess að hann gegnir formennsku í aðalstjórn íþróttafélagsins Fylkis. 

Björn segir í samtali við mbl.is að mikil reynsla og þekking tapist á því að hann fái ekki að sitja í ráðinu auk þess sem það veki upp spurningar fyrir sveitarstjórnarmenn í minni sveitarfélögum, komist ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að Björn sé vanhæfur til að sitja í ráðinu.

„Þetta skiptir miklu máli fyrir smærri sveitarfélög á landsbyggðinni þar sem menn í sveitarstjórn eru með marga hatta [...]. Segjum til dæmis eins og á Egilstöðum sé sveitarstjórnarmaður sem er formaður í björgunarsveit og það eru nokkrar björgunarsveitir í því sveitarfélagi. Við vitum alveg hvernig þetta getur orðið ef kjörnir fulltrúar fá ekki að sinna neinum félagsmálum,“ segir Björn. 

Ítrekar Björn að hann fái ekki greitt fyrir störf sín hjá Fylki heldur sé þetta aðeins áhugamál sem hann sinnir samhliða störfum sínum hjá borginni. 

Segir Björn að hann hafi alltaf vikið af fundum ef málefni Fylkis hafi verið til umræðu á fundum borgarstjórnar og það myndi hann áfram gera fengi hann sæti í menningar- og íþróttaráði. 

Telur Björn vanhæfan til að fjalla um önnur íþróttafélög

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lagt er til að Björn taki sæti í ráðinu en skrifstofustjóri borgarstjórnar fjallaði um hæfi Björns í minnisblaði til forsætisnefndar borgarstjórnar 6. mars 2023 en þá taldi skrifstofustjórinn, auk borgarlögmanns, Björn vanhæfan til að sitja í ráðinu. 

Þar kom fram að Björn væri vanhæfur til að sitja í ráðinu „á grundvelli sérstakra hæfisreglna þar sem ráðinu ber að hafa eftirlit með rekstri mannvirkja á sviði íþrótta- og tómstundamála sem eru í eigu Reykjavíkurborgar eða Reykjavíkurborg hefur veitt styrk til“. 

Var einnig vísað til þess að Björn sé í fyrirsvari fyrir Fylki og gæti hagsmuna félagsins og var það niðurstaða skrifstofustjóra og borgarlögmanns að Björn væri vanhæfur til að fjalla um málefni Fylkis auk annarra íþróttafélaga sem stunda sömu atvinnustarfsemi. 

Skrifstofustjórinn skilaði inn öðru minnisblaði til forsætisnefndar borgarstjórnar 26. mars síðastliðinn vegna sama máls og komst hann að sömu niðurstöðu.

Segir meirihlutann fara í kringum lögin

Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók til máls í umræðum um meint vanhæfi Björns í borgarstjórn í dag. Í samtali við mbl.is segir hann að meirihlutinn sé að fara í kringum lögin með því að fá álit ráðuneytisins. 

„Við vildum að málið hefði þannig farveg að það væri möguleiki að fara með það undir innviðaráðuneytið þannig að sá sem tæki ákvörðun um málið væri að taka stjórnvaldsákvörðun og væri þannig að taka ábyrgð á niðurstöðunni. Þá niðurstöðu væri þá hægt að bera undir umboðsmann Alþingis en það er búið að svipta hann [Birni] þeim möguleika á að leita réttar síns með þeim hætti,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert