Mun halda áfram að þjón­usta Grindvíkinga

Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Héraðsstubbs í Grindavík, tók þá …
Sigurður Enoksson, bakarameistari og eigandi Héraðsstubbs í Grindavík, tók þá ákvörðun nýlega að halda áfram starfsemi bakarísins en nýju gosi fylgir enn á ný mikil óvissa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Enoksson, eigandi bakarísins Hérastubbs, segist efa það að fólk geri sér grein fyrir því við hvað Grindvíkingar lifi. Óvissan um morgundaginn geti tekið toll á heilsu og almenna líðan. Þá er það mat hans að ef ríkið hefði borgað upp fyrirtækin í Grindavík hefði ekki þurft að standa í rekstrarstuðningi við þau. Úkoman væri líklega sú sama.

„Óvissan um hvort ég eigi að mæta í vinnuna á morgun og annað, það er svo margt í þessu að þetta getur verið rosalega erfitt. Ég vil meina að þetta fari illa með mann, en við höfum bara reynt að halda áfram.

Heilsan hefur ekki skánað við þetta. Þetta er blanda af álagi og öðru, svo voru menn að segja við mann sko „þú ræður ekkert hvað líkaminn þinn gerir þó að þú segir að þú sért í lagi“,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Taldi niður að lokun Hérastubbs

„Fyrir þremur mánuðum setti ég töluna 84 á vegginn minn á facebook, þá var ég að telja niður þangað til ég ætlaði að loka bakaríinu – þetta var semsagt fyrir 84 dögum síðan, en í dag lýkur ríkisstuðningi við fyrirtæki í Grindavík.“

Sigurður tók þá ákvörðun nýlega að halda áfram starfsemi bakarísins en nýju gosi fylgir enn á ný mikil óvissa.

„Við höfum við fyrri gos fengið að fara inn daginn eftir en ég veit ekki hvernig þetta verður núna. Framundan eru fermingar og svoleiðis sem ég átti að fara að baka fyrir, ég er að vonast til að komast inn í Grindavík, þó ég hafi bakaríið ekkert opið þá gæti ég allavega klárað þessar veislur,“ segir Sigurður.

Erfitt sé að geta ekki svarað fólkinu sem spyrji hvort það fái terturnar sínar fyrir veislur helgarinnar. Aðspurður segist hann þá ekki hræðast það að fara inn í Grindavík.

„Þegar síðasta eldgos var þá fór ég þarna inn um nóttina að ganga frá ákveðnum hlutum, en það er óvíst hvað maður fær leyfi til að gera núna.“

Sigurður rekur bakaríið Hérastubb ásamt fjölskyldu sinni í Grindavík.
Sigurður rekur bakaríið Hérastubb ásamt fjölskyldu sinni í Grindavík. Ljósmynd/herastubbur.is

„Það hefði örugglega komið út á því sama“

Sigurður og eiginkona hans seldu húsið sitt í Grindavík og hafa átt í erfiðleikum með að ákveða hvar þau vilja, og geta búið.

„Maður veit ekkert með þessa atburði suður með sjó, hvar þeir verða og hvort þeir muni eyðileggja Reykjanesbraut eða Svartsengi. Á maður að eiga heima aftur á Suðurnesjum eða á öðrum stað og keyra á milli?

Maður er líka svekktur yfir því að yfirvöld skildu nú ekki kaupa upp fyrirtækið hjá manni, við erum búin að þjóna samfélaginu í 30 ár.“

Það er mat Sigurðar að ef ríkið hefði borgað upp fyrirtækin hefðu þau ekki þurft að standa í rekstrarstuðningi við fyrirtæki í Grindavík.

„Það hefði örugglega komið út á því sama.“

„Það er allt í lagi með bakaríið“

Spurður út í framhaldið svarar Sigurður að ætlunin sé að halda áfram að reyna að þjónusta viðskiptavini sína, „maður reynir bara að fylgjast með stöðunni“.

„Við höfum verið í þessu í 30 ár og það hefur gengið vel. Það er sorglegt ef náttúruhamfarir verða það sem tekur okkur niður. Það skal ekki gera það, það er allt í lagi með bakaríið, það eru bara einhverjar tvær, þrjár sprungur þar.

Það eru bara ekki við sem ráðum því hvort að við komumst inn í bakarí eða ekki. Það hefur alltaf verið þannig að fyrirtæki hafa fengið að fara inn skömmu eftir en þá snýst þetta alltaf um hvar gosið er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert