Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu í gærkvöld um mann með hníf á hóteli í miðborginni.
Maðurinn hafði verið í útistöðum við annan mann þegar hann tók upp hníf og ógnaði með honum. Gerandinn var handtekinn á vettvangi og var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 69 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista fimm í fangageymslum í morgunsárið.
Tilkynnt var um ofurölvi aðila á krá í miðborginni. Í fyrstu neitaði aðilinn að yfirgefa krána eftir fyrirmæli lögreglu og þurfti að færa hann út. Þar neitaði sá ölvaði að gefa upp kennitölu en að endingu reyndi lögregla að aka viðkomandi heim. Þegar þangað var komið neitaði einstaklingurinn þá að fara út úr lögreglubifreiðinni og endaði málið þannig að vista þurfti hann í fangaklefa.
Lögreglan á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, stöðvaði tvo ökumenn í akstri sem voru án réttinda. Annar aðilinn hefur ítrekað verið stöðvaður í akstri og hjá hinum fannst meint þýfi í bifreiðinni.