Tveir stórir skjálftar mældust við Reykjanestá laust fyrir klukkan 17 í dag.
Sá stærri var 5,3 að stærð en ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð þess minni.
Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Skjálftarnir fundust vel á suðvesturhorninu en tilkynningar hafa hrannast inn til Veðurstofunnar frá landsmönnum. Íbúar á Akranesi, í Hveragerði, á Hellu og í Vík fundu einnig vel fyrir hræringunum, til marks um styrkleika þeirra.
Jóhanna segir að líklega hafi þetta verið gikkskjálftar vegna spennubreytinga sem hafa orðið vegna jarðhræringanna.
Áköf skjálftahrina hófst upp úr klukkan sex í morgun vegna kvikuhlaups og hefur ekkert lát verið á skjálftum síðan þá.
Kvikugangur þykir enn vera að myndast, sem teygi sig frá Sundhnúkagígaröðinni í norðausturátt.