Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að allt stefni í að eldgos sé að hefjast á Sundhnúkagígaröðinni, það áttunda í röðinni frá því í desember 2023.
„Við erum að sjá öll merki um það að kvika sé komin af stað. Skjálftavirkni hófst rétt upp úr klukkan 7 sem er dæmigert upphaf af atburðum og í kjölfarið fengum við viðvaranir frá borholum í Svartsengi og ljósleiðurum,“ segir Benedikt við mbl.is.
Hann segir að þetta séu nokkur skýr merki um að kvika sé á ferðinni og gert er ráð fyrir að það endi með eldgosi.
„Það bendir allt til þess að eldgosið verði á svipuðum slóðum og í síðustu gosum en við fylgjumst vel með þróun mála. Síðast leið um hálftími frá því fyrstu skjálftamerki sáust þar til fór að gjósa og við erum að gera ráð fyrir að svipað verði upp á teningnum núna. En svo getur það verið breytilegt,“ segir hann.