Úlfar Lúðvíksson segir að enginn sé í húsum í Grindavík eftir rýmingu fyrr í dag. Hann segir að dagurinn í dag hafi verið erilsamur.
„Við byrjum snemma í morgun. Þetta var fyrir sjö þegar við fórum í rýmingu inn í Grindavík og inn í Svartsengi,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is og heldur áfram:
„Það gekk vel að rýma Bláa lónið eins og Grindavík, það var dvalið í nokkrum húsum áfram. Mér skilst að það sé ekki neinn í húsum akkúrat núna.“
Úlfar kveðst ekki hafa nákvæma lýsingu á því sem gekk á þegar heimamaður mætti tveimur björgunarsveitarmönnum með skotvopni við rýmingu í morgun.
Hann segir manninn hafa verið handtekinn og að málið fari nú sinn farveg innan réttarvörslukerfisins.
Áttir þó von á kröftugra gosi en raun bar vitni?
„Ég held að margir vísindamenn hafi átt vona á kröftugra gosi,“ segir Úlfar.
Hann segir að yfirvöld hafi samræmt sín störf í dag á fundum og að það muni halda áfram.
„Þar berum við saman okkar bækur og fylgjumst auðvitað mjög vel með framvindu þessa goss. Þetta eru helstu verkefnin. Það eru 50 manns í þessu útkalli og það þarf að endurnýja þennan mannskap og halda vöku sinni,“ segir Úlfar.