„Varla hægt að segja að þetta venjist“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir varla hægt að segja …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir varla hægt að segja að ástandið á Reykjanesskaganum venjist, æðruleysið sé eina haldreipið. Samsett mynd/Eggert Jóhannesson

„Þetta er áttunda gosið núna og við þessu var svo sem að búast, en vonin er auðvitað sú að þetta valdi ekki miklum usla þegar það kemur upp,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is.

Bærinn var rýmdur í morgun, ekki í fyrsta sinn, og segir Fannar Grindavík mannlausa að frátöldum þeim viðbragðsaðilum sem þar þurfa að vera og öðrum sem hafa brýnustu skyldum að gegna vegna hamfaranna.

Þýðir ekkert annað en æðruleysi

„Ég er í samhæfingarmiðstöðinni hjá almannavörnum núna og þetta er eiginlega þekkt mynstur í sjálfu sér, en svo verður að ráðast hvernig framvindan verður á þessu, hvert hraunið rennur og hve langan tíma það tekur að tappa af sér, þessu getur enginn svarað, það er bara að bíða og fylgjast með,“ segir bæjarstjóri.

Hvernig er sú tilfinning að sitja sem bæjarstjóri gegnum allar þessar hamfarir sem verið hafa og fylgjast með bæjarbúum í hremmingum?

„Það er varla hægt að segja að þetta venjist,“ svarar Fannar, „það þýðir ekkert annað en að taka þessu með æðruleysi vitandi að það er búið að gera allt sem hægt er til að bregðast við þegar kemur að gosi. Varnargarðarnir hafa bjargað bæði bænum og Svartsengi eins og vitað er þannig að nú er bara biðstaða hjá okkur og fjöldi manns hér í miðstöðinni sem vaktar þetta vel og svo bíðum við bara,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, að lokum um áttunda eldgosið í þeirri röð sem enginn veit hve lengi hefur stórfelld áhrif á daglegt líf Grindvíkinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert