„Það þarf að hætta þessari draumapólitík og horfast í augu við þá staðreynd að áætlunar- og sjúkraflug er ekki að fara frá Reykjavíkurflugvelli næstu 15-20 árin. Það er raunveruleikinn sem við búum við,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi Viðreisnar, en hún leggur fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag um að banna einkaþotur og þyrluflug á Reykjavíkurflugvelli.
Hún tekur fram að þyrluflug Landhelgisgæslunnar verði áfram á flugvellinum og því sé einungis um að ræða að einkaþyrlurnar og einkaþoturnar geti ekki lent í Reykjavík.
„Við þekkjum öll að flugvallarhugmyndir í Hvassahrauni eru komnar í pattstöðu og afstaða okkar í Viðreisn hefur ekkert breyst: Í framtíðinni þarf að finna flugvellinum annan stað. En á meðan staðsetningin er óljós verðum við að búa til almennilegt umhverfi á þeim stað sem flugvöllurinn er nú.“
Þá segist hún vonast til að tillagan verð samþykkt.