Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, telur ólíklegt að kvikan sem hleypur nú fram í átt að Reykjanesbrautinni muni ná til yfirborðs.
„Kvikan er að teygja sig lengra í norðaustur en hún hefur gert áður,“ segir Magnús Tumi.
Hann telur ólíklegt að fleiri gossprungur opnist en segist þó ekki geta útilokað það. Kvikan hlaupi fram á nokkurra kílómetra dýpi og verði líklega aðeins að kvikuinnskoti.
Þá sé afar ólíklegt að sprunga opnist á nyrsta enda kvikugangsins, sem er aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá Reykjanesbrautinni.
„Þarna eru gjár og sprungur en þarna hefur nánast ekkert gosið í fjórtán þúsund ár. Þó að kvikan nái að troða sér þarna norður eftir þá er hún komin það langt frá miðjunni að það verða engin gos.“
Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá hvernig jörðin skelfur eftir því sem kvikugangurinn færist norðar.
Mikil kvika hafði safnast fyrir í kvikuhólfi undir Svartsengi og áttu því margir von á kraftmeira eldgosi en því sem braust út á tíunda tímanum í morgun og virðist nú vera að lognast út af.
Að sögn Magnúsar Tuma er útlit fyrir að „aðalatburðurinn“ í þessum jarðhræringum verði kvikuinnskotið, ekki eldgosið sem hann telur líklegt að vari einungis í nokkrar klukkustundir í viðbót.
„En það virðist vera að í staðinn fyrir að þessi atburður verði að mestu leyti eldgos – eins og síðustu atburðir hafa verið, þá er þetta að teygja úr sér á fimmtán kílómetra kafla. Þar er aðeins gliðnun, þar myndast þessi gangur og það virðist vera að það verði aðalatburðurinn í þetta sinn og að gosið sé bara lítill leki sem er að fjara út.“
Hann segir einhverjar skemmdir hafa orðið í Grindavík vegna sprunguhreyfinga. Hann segist þó ekki vera með upplýsingar um umfang þeirra.