Flæðir enn í kvikuganginn úr Svartsengi

Kvikugangurinn er talinn liggja frá bæjarmörkum Grindavíkur, eftir Sundhnúkagígaröðinni og …
Kvikugangurinn er talinn liggja frá bæjarmörkum Grindavíkur, eftir Sundhnúkagígaröðinni og í átt að Reykjanesbrautinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn eru merki um að kvika streymi úr Svartsengi inn í nýja kviku­gang­inn á Reykja­nesskaga sem teyg­ir sig um 20 kíló­metra frá bæj­ar­mörk­um Grinda­vík­ur og í átt að Reykja­nes­braut­inni og höfuðborg­ar­svæðinu.

Ekki er úti­lokað að önn­ur gossprunga opn­ist á kviku­gang­in­um. Það verður þó sí­fellt ólík­legra eft­ir því sem skjálfta­virkn­in dvín­ar og af­lög­un minnk­ar.

Þetta seg­ir Bene­dikt Gunn­ar Ófeigs­son, fag­stjóri af­lög­un­ar­mæl­inga hjá Veður­stofu Íslands.

Aðeins hluti kvik­unn­ar sem hljóp úr geymslu­hólf­inu und­ir Svartsengi í gær fann sér leið upp á yf­ir­borð í gegn­um gossprung­una sem opnaðist norðan Grinda­vík­ur og á Sund­hnúkagígaröðinni.

Kvik­an leitaði í meiri mæli und­ir yf­ir­borðinu til norðurs og ruddi kviku­gang sem tal­inn er telja 20 kíló­metra að lengd. Kom það vís­inda­mönn­um á óvart hve norðarlega hún fór, að sögn Bene­dikts.

Ólík­legt að annað gos verði

Skjálfta­hrina sem hef­ur staðið yfir frá því í gær er tal­in sýna legu kviku­gangs­ins en sam­kvæmt því eru aðeins þrír kíló­metr­ar sem skilja að enda kviku­gangs­ins og Reykja­nes­braut­ina. Þá eru jafn­framt tæp­ir ell­efu kíló­metr­ar frá enda kviku­gangs­ins og að Hafnar­f­irði. Enn styttra er svo vega­lengd­in á milli Voga og kviku­gangs­ins, eða rúm­ir sex kíló­metr­ar.

Bene­dikt Gunn­ar seg­ir nokkra kíló­metra liggja niður á kviku­gang­inn og ólík­legt að kvik­an nái til yf­ir­borðs. Flæði úr kviku­hólf­inu und­ir Svartsengi fari minnk­andi og þar með lík­urn­ar á eld­gosi.

Jarðvís­inda­menn bíða nú frek­ari gagna, m.a. InS­ar-mynda úr gervi­tungl­um, til að geta greint bet­ur hvernig kviku­gang­ur­inn ligg­ur og á hve miklu dýpi hann sé.

Sprung­ur í Grinda­vík

Við mynd­un kviku­gangs­ins í gær og í dag gliðnaði landið og sitt hvor­um meg­in við gliðnun­ina mæld­ist landris, þar á meðal við Voga.

Bene­dikt seg­ir mun á því landrisi og landrisi sem mæl­ist vegna kviku­söfn­un­ar, eins og í Svartsengi. Af­lög­un­in vegna gliðnun­ar­inn­ar fari nú minnk­andi.

Hann seg­ir at­b­urðinn í gær ekk­ert í lík­ingu við þann sem varð 10. nóv­em­ber þegar 10 kíló­metra lang­ur kviku­gang­ur er tal­inn hafa mynd­ast. Þó svo að kviku­gang­ur­inn sem myndaðist síðasta sól­ar­hring hafi verið lengri, þá hafi magn kvik­unn­ar verið minna.

Síðast hafi af­lög­un í Grinda­vík og ná­grenni verið mæld í metr­um en nú séu sprung­urn­ar sem mynduðust í Grinda­vík til að mynda aðeins nokkr­ir senti­metr­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert