Gæti leitt til eldgoss við Reykjanestá

Við Reykjanestá.
Við Reykjanestá. mbl.is/Sigurður Bogi

„Mér finnst þessi skjálftavirkni sem hefur haldið áfram við Reykjanestána, eftir að gosið við Sundhnúkagaröðina byrjaði og lauk skömmu síðar, mjög athyglisverð.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor við mbl.is.

Skjálftavirkni er enn talsverð við Reykjanestá eftir að síðdegis í gær urðu þar stórir skjálftar sem fundust víða á landinu.

Þor­vald­ur Þórðar­son við gosstöðvarnar í gær.
Þor­vald­ur Þórðar­son við gosstöðvarnar í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hreyfingar á misgengjum

Jarðvísindamenn á Veðurstofu Íslands segja skjálftana líklega vera svokallaða gikkskjálfta vegna spennubreytinga sem hafa orðið vegna jarðhræringanna á Sundhnúkagígaröðinni.

Þorvaldi finnst þetta vera undarleg skýring og hann segist ekki geta metið skjálftana sem gikkskjálfta.

„Mér finnst þetta benda til þess að það séu hreyfingar á misgengjum eða veikleikabeltum sem tengjast flekaskilunum og séu tektónískar hreyfingar,“ segir hann.

Kveðst hann ekki geta fullyrt um hvort kvika sé að safnast þarna undir en honum finnst líta út fyrir að almenn spennulosun eigi sér stað á flekaskilunum.

Atburðarásin nær út í Eldey

Þorvaldur er spurður hvort hann telji að eldgos gæti brotist út við Reykjanestá.

„Ég get alveg séð það fyrir mér. Allt sem er að gerast á þessu svæði finnst mér vera undirbúningur fyrir eitthvað slíkt,“ segir hann.

„Þessi atburðarás nær alveg út í Eldey og ef þetta er spennulosun þá býr hún til pláss þar sem kvika getur auðveldlega fyllt í það. Ef hún er á yfirþrýstingi þá kemur hún upp.“

Breytingar á Reykjanesskaganum

Honum finnst flest benda til þess að það séu breytingar í gangi á Reykjanesskaganum og menn þurfi að vera vel á varðbergi og búnir undir að eitthvað meira fari að gerast.

„Svona mikil skjálftavirkni á stuttum kafla á þessu belti tengist spennulosun sem er sú mesta sem við höfum séð frá atburðunum 10. nóvember 2023, og við vitum hvað kom á eftir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert