Hundaeigandi á höfuðborgarsvæðinu hefur verið kærður fyrir að hóta eftirlitsmanni Matvælastofnunar ofbeldi er hann kom í eftirlit á heimili hans.
Hafði stofnunin fengið ábendingu um slæma meðferð á hundi og fór maður í kjölfarið í eftirlitsferð. Hundaeigandinn brást hins vegar ókvæða við og hótaði honum ofbeldi. Brotið var kært til lögreglu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.
Í tilkynningunni segir einnig af bónda á Vesturlandi sem kærður var til lögreglu fyrir brot á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Braut hann lögin tvisvar sinnum.
Sauðfé í hans eigu slapp yfir varnarlínu milli smithólfa og í stað þess að slátra því strax, eins og krafist er í dýrasjúkdómalögum, flutti hann það til baka á bæ sinn.
Þá lagði stofnunin stjórnvaldssekt að upphæð 48 þúsund krónur á umráðamann hunds á Norðausturlandi fyrir að beita hund harðýðgi í viðurvist vitna.
Stofnunin hefur einnig skipað tilsjónarmann á bæ á Suðurlandi fram yfir sauðburð. Bóndinn vanrækti fóðrun og brynningu sauðfjár vegna skorts á getu.