Jón Pétur: „Hvernig myndi þér líða?“

Jón Pétur var með hugvekju á Alþingi.
Jón Pétur var með hugvekju á Alþingi. mbl.is

„Hvernig myndi þér líða að skilaboðin frá samfélaginu væru að þú værir gerandi, hefðir forréttindi, værir hættulegur, skuldaðir samfélaginu fyrir syndir feðra þinna, værir óþarfur?“

Þetta sagði Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars í ræðu sinnu undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.

Ræðan virtist vera einskonar hugvekja um bágborna stöðu ungra drengja í íslensku samfélagi og áskoranir sem þeir þurfa að ganga í gegnum.

Gerir allt til að fela veikleikann

Menntamálin hafa verið Jóni Pétri hugleikin og þá ekki síst staða drengja í menntakerfinu.

„Hvernig myndi þér líða ef þú ættir erfitt með að lesa þegar þú ert 15 ára? Skólinn hefur brugðist þér, þú upplifir þig heimskan. Þú gerir allt til að fela þennan veikleika. Þú reynir að lesa og það er hlegið, þú ert smánaður,“ sagði Jón Pétur.

Hann sagði fátt verra en að vera heimskur og kunna ekki að lesa og því beiti ungir menn þeim ráðum að breiða yfir ólæsið með því að beina athyglinni annað. Til dæmis með því að leika trúð, rífa kjaft, fara á klósettið og gleyma námsgögnum.

Fáar ef nokkrar sterkar karlfyrirmyndir

Hann sagði það vera meira en full vinna að fela vanlíðan og halda andliti svo að það kæmist ekki upp um þig.

„Hvernig myndi þér líða að vera skammaður mörgum sinnum á dag, finna að þú ert vandamál, fá tugi Mentor-skilaboða heim; hegðun ábótavant, vantar námsgögn, truflar í tíma. Allir eru betri en þú. Hvernig myndi þér líða að hafa fáar ef nokkrar sterkar karlfyrirmyndir í leik- og grunnskóla, hafa ekki karlmann sem þú getur litið upp til, lært af, fengið ráð, hlegið með, grátið með? Hvernig myndi þér líða að skilaboðin frá samfélaginu væru að þú værir gerandi, hefðir forréttindi, værir hættulegur, skuldaðir samfélaginu fyrir syndir feðra þinna, værir óþarfur?“ spurði Jón Pétur.

„Hvernig liði þér að vera 15 ára strákur“

Hann spurði einnig hvernig þér myndi líða ef kröfurnar væri þær að þú værir með allt á hreinu, hefðir skýran tilgang og að þú gætir ekki verið þú sjálfur. 

„Hvernig liði þér að vera 15 ára strákur í þessari stöðu, að þinn heimavöllur væri á skjön við samfélagið, þú værir jaðarsettur og að þín leið væri að taka áhættu, hafa rangt við, vera dæmdur? Þú endar í fangelsi, engin betrun, bara forherðing. Engum þykir vænt um þig, þú getur sjálfum þér um kennt. Þú skiptir ekki máli,“ sagði hann að lokum.

Ræðan hefur vakið nokkur viðbrögð á samfélagsmiðlum en Jón Pétur deildi færslu á facebook þar sem hægt er að horfa á ræðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert