Ungbarnaleikskólinn Ársól í Grafarvogi var lokaður í dag þar sem starfsfólk treysti sér ekki til að mæta í vinnu eftir að leikskólinn var sótthreinsaður vegna myglu um síðustu helgi.
Starfsfólkið sagði sterka lykt hafa verið í húsnæðinu eftir þrifin, margir fengu höfuðverk og fundu skrýtið bragð í munni, sem þeir tengdu við að hafa verið í rýminu sem var þrifið.
Þetta staðfestir Inga Dóra Hlíðdal Magnúsdóttir, leikskólastjóri á Ársól, í samtali við mbl.is.
Foreldrar barna á leikskólanum fengu tölvupóst í morgun þar sem þeim var tjáð að starfólkið treysti sér ekki til að mæta og að kallað hefði verið eftir upplýsingum um efnin sem voru notuð við þrifin.
Leikskólinn var opinn eins og venjulega á mánudaginn og voru börn og starfsfólk var þar allan daginn. Í gær þurfti hins vegar að loka einni deild hálfan daginn vegna manneklu. Foreldri sem mbl.is ræddi við hafði miklar áhyggjur af því að börnin hefðu dvalið í rýminu þar sem starfsfólkinu leið illa, en starfsfólkið lýsti vanlíðan sinni fyrir foreldrum.
Ársól er einkarekinn leikskóli, en leigir húsnæði af Reykjavíkurborg, og var það starfsfólk á vegum borgarinnar sem sá um þrifin.
Myglugró hafa greinst í ryksýnum sem hafa verið tekin á leikskólanum, en uppruni myglunnar hefur ekki fundist. Því var ákveðið að sótthreinsa leikskólann reglulega með efnum sem eiga að drepa niður myglugró, á meðan unnið væri að viðhaldi og komist að rót vandans.
Inga Dóra segir starfsfólki hafa verið tjáð að það ætti að vera öruggt að vera í rýminu á mánudaginn ef þrifið væri um helgina.
„Það á að vera öruggt fyrir fólk að fara inn í rýmið átta klukkutímum eftir að búið er að úða. Það var gert á sunnudaginn svo það voru liðnir meira en átta klukkutímar þegar leikskólinn opnaði,“ segir Inga Dóra. Hún hefur þó fullan skilning á því að starfsfólkið hafi ekki treyst sér til að mæta til vinnu við þessar aðstæður.
„Fólk var óvisst um stöðuna og maður sýnir því fullan skilning.“
Í dag var óskað eftir upplýsingum um efnin og brugðist var skjótt við af hálfu borgarinnar að sögn Ingu Dóru. Hún segist hafa fengið það að staðfest að öruggt sé fyrir börn og starfsfólk að vera í húsinu.
„Það komu menn frá borginni og kíktu á aðstæður hjá okkur. Þeir vildu líka fullvissa sig um að aðstæður væru eðlilegar,“ segir Inga Dóra, en niðurstaðan var sú að ekkert væri að loftgæðum og að allt liti eðlilega út eftir þrifin.
Því gert ráð fyrir því að leikskólinn verði opinn á morgun eins og venjulega.
Líkt og fyrr sagði hafa myglugró fundist í ryksýnum á leikskólanum og er það ástæðan fyrir þrifunum. Inga Dóra segir að Reykjavíkurborg hafi talið að nóg væri að sótthreinsa leikskólann einu sinni í mánuði til að halda myglugróunum í skefjum, en yfirstjórn leikskólans vildi að það yrði gert oftar.
„Í samráði við foreldraráð þá þótti okkur það ekki nóg vegna þess hve börnin eru ung og við viljum ekki taka áhættuna með áhrif myglunnar á heilsu barnanna. Við óskuðum því eftir því að þrif færu fram einu sinni í viku, eða um hverja helgi,“ segir Inga Dóra.
„En ef andrúmsloftið verður ekki nógu gott við vikuleg þrif, þá þurfum við að endurskoða það,“ bætir hún við.
Inga Dóra segir ákvörðun um það verða tekna í samráði við Skóla ehf. sem rekur Ársól, Reykjavíkurborg, starfsfólk og foreldra barnanna.