Meirihlutinn fylgir fordæmi ríkisstjórnarinnar

Hægt er að senda inn tillögur til 30. apríl.
Hægt er að senda inn tillögur til 30. apríl. mbl.is/Árni Sæberg

Samþykkt var á fundi borgarstjórnar í gær að leita til íbúa og starfsfólks borgarinnar til að fá tillögur og ábendingar um hvernig nýta megi fjármuni og tíma starfsfólks betur á samráðsvef Reykjavíkurborgar

Er þetta sams konar leið og ný ríkisstjórn fór í upphafi kjörtímabilsins þar sem óskað var eftir hagræðingartillögum frá almenningi. Í kjölfarið kynnti sérstakur hagræðingarhópur stjórnvalda sextíu hagræðingartillögur sem eiga að spara ríkissjóði 71 milljarð króna á árunum 2026 til 2030. 

Íbúum borgarinnar býðst nú að senda inn tillögur á samráðsgátt borgarinnar til 30. apríl. Í kjölfarið mun sérstakur vinnuhópur á vegum borgarinnar fara yfir innsend álit og draga saman helstu niðurstöður sem verða svo kynntar í fagráðum, borgarráði og borgarstjórn. 

„Niðurstöðurnar verða m.a. nýttar til að móta starfsemi borgarinnar þar sem við á, við gerð fjárhagsáætlunar og útfærslu verkefna sem gætu stuðlað að því að nýta bæði tíma og fjármagn í fjölbreyttri starfsemi borgarinnar,“ segir í samráðsgáttinni. 

Leggja til fækkun borgarfulltrúa og að hætt sé fjárstuðningi við GR

Þegar þetta er skrifað hafa 29 einstaklingar sent inn tillögur í samráðsgáttina. Hægt er að senda inn tillögur undir nafnleynd en þær umsagnir er ekki hægt að lesa. 

Á meðal tillagna sem hafa borist er að hætt sé að styrkja Golfklúbb Reykjavíkur (GR) með fé, samningar borgarinnar við hugbúnaðarfyrirtæki verði endurskoðaðir, borgarfulltrúum verði fækkað í 15, laun borgarstjóra verði lækkuð í eina og hálfa milljón á mánuði og að borgin hætti útvistun þjónustu á borð við ræstingar og rekstri á götulýsingu. 

Tillagan var samþykkt af öllum borgarfulltrúum meirihlutaflokkanna, Samfylkingar, Vinstri grænna, Sósíalista, Flokks fólksins og Pírata, auk fulltrúa Framsóknar og Viðreisnar. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. 

Borgarfulltrúi vill selja fasteignir borgarinnar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, er ein þeirra sem hafa sent inn tillögu í gáttina. Leggur hún meðal annars til að borgin selji fasteignir „sem borgin þarf ekki að eiga“ og nefnir Iðnó til dæmis.   

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar. mbl.is/Karítas

Þá leggur hún einnig til að sorphirða borgarinnar verði boðin út, malbikunarstöðin Höfði verði seld eða hlutir félagsins verði seldir til nágrannasveitarfélaga. Auk þess sem hún leggur til að tvö ráð borgarinnar, stafræna ráðið og mannréttindaráðið, verði lögð af og því fundinn annar staður innan fagráða borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert