Rafrettur hafa áhrif á lungu, hjarta og heila

Læknarnir segja að vísbendingar séu um að rafsígarettureykingar geti aukið …
Læknarnir segja að vísbendingar séu um að rafsígarettureykingar geti aukið nokkra áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, líkt og sígarettureykingar því undirliggjandi ferlar eru svipaðir. mbl.is/Colourbox

Vísbendingar eru komnar fram um að rafsígarettureykingar hafi langvinnar heilsufarslegar afleiðingar, sérstaklega á lungu, hjarta og heila. Þá sýna rannsóknir að rafsígarettur hafa ekki reynst gagnlegar til að hætta sígarettureykingum. Þvert á móti er tilhneigingin sú að innbyrða meira nikótín.

Þetta kemur fram í svari á vef Vísindavefs Háskóla Íslands þar sem fjallað er um langtímaafleiðingar rafrettureykinga. Höfundar svarsins eru þau Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum, Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum við HÍ, og Tómas Guðbjartsson, prófessor í skurðlækningum við HÍ.

Þar segir að fyrstu rafsígaretturnar hafi komið á markað í Kína árið 2004 og hafi í kjölfarið breiðst hratt út í Bandaríkjunum og Evrópu á árunum 2006 og 2007.

Langvinnar heilsufarslegar afleiðingar

„Af þessu er ljóst að tiltölulega stutt er síðan rafsígarettur ruddu sér til rúms og ekki öll kurl komin til grafar um langtímaáhrif þeirra. Helstu lífsstílssjúkdómar koma fram áratugum eftir að fólk er útsett fyrir óheilbrigðum lífsstíl. Auk þess þarf að sýna fram á orsakasamband með rannsóknum, sem tekur enn fleiri áratugi að leiða til lykta. Þrátt fyrir að rannsóknir séu tiltölulega stutt á veg komnar eru þó komnar fram vísbendingar um að rafsígarettureykingar hafi langvinnar heilsufarslegar afleiðingar, sérstaklega á lungu, hjarta og heila,“ segir í greininni.

Tekið er fram að fjöldi efna berist með rafsígarettureyk (til dæmis þungmálmar, lífræn efnasambönd og bragðefni) sem geti sett af stað bólgusjúkdóm í lungum og skaðað þau með margvíslegum hætti.

Nikótín öflugt taugaeitur

Þá innihalda rafsígarettur gjarnan nikótín sem sé örvandi efni. Það auki hjartslátt og blóðþrýsting og ýtir undir streituástand í líkamanum með tilheyrandi auknu álagi á hjarta og æðakerfi.

Nikótín er öflugt taugaeitur sem er þekkt fyrir að skerða þroska og starfsemi heilans, sérstaklega hjá börnum og ungmennum sem eru að taka út þroska langleiðina til þrítugs.

Bent er á nikótín sé öflugt taugaeitur sem sé þekkt fyrir að skerða þroska og starfsemi heilans, sérstaklega hjá börnum og ungmennum sem séu að taka út þroska langleiðina til þrítugs.

Skaðsemi rafretta á eftir að koma betur í ljós

„Söluaðilar kynna rafsígarettur sem öruggan valkost í samanburði við sígarettur. Aftur á móti vilja margir vísindamenn banna vöruna því þótt hún sé skaðminni en sígarettur á einhvern hátt, þá er hún langt frá því að vera skaðlaus. Nikótín er til dæmis alltaf skaðlegt heilsu, sérstaklega fyrir börn og ungmenni. Framtíðin á þó eftir að leiða betur í ljós hversu skaðlegar rafsígarettur raunverulegar eru, því rannsóknir á langtímaáhrifum eru skammt á veg komnar,“ segir í greininni.

„Rannsóknir sýna að rafsígarettur hafa ekki reynst gagnlegar til að hætta sígarettureykingum. Þvert á móti er tilhneigingin sú að innbyrða meira nikótín, en eingöngu var gert með sígarettum. Það er kannski best lýsandi að uppfinningamaður rafsígaretta, Hok Lik, byrjaði aftur að reykja sígarettur – samhliða rafsígarettum,“ segir í lok greinarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert