Tollverðir á Keflavíkurflugvelli lögðu hald á 20 þúsund Oxycontin-töflur í síðustu viku sem var reynt að smygla til landsins.
Frá þessu var greint í kvöldfréttum Rúv í kvöld.
Þar segir að töflurnar hafi verið með hæsta styrkleika eða 80 milligrömm í hverri töflu. Götuverð á slíkri töflu var 5.750 krónur árið 2023 sem gerir allt að 115 milljónum fyrir allar 20.000 töflurnar.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins en að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjórans á Suðurnesjum, er rannsóknin á viðkvæmu stigi.