Andrés Magnússon
„Ef menn vilja tvöfalda veiðigjöld, þá eiga menn bara að tvöfalda veiðigjöld og segja „heyrðu þetta eru þá bara sextíu og sex prósent,“ eins og hlutirnir eru. Ekki að vera að slá ryki í augun á fólki,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, í Dagmálum.
Hann gagnrýnir að með frumvarpinu um breytingar á lögum um veiðigjald fylgi engar greinargerðir eða samanburður.
„Þetta er illa unnið og greint, því miður. Og eins og ég segi, tvöföldun veiðigjalda, við getum talað um hækkun skatta á eftir eða eins og ég segi í öðru samhengi, en aðferðafræðin sem er beitt þarna, er algjörlega verið að bera saman epli og appelsínur. Og þetta mun koma niður á landvinnslu.“
Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart að stefnt væri að því að tvöfalda veiðigjöld, heldur fyrst og fremst hversu bratt það sé gert.
„Það lá alveg fyrir að hluti stjórnmálaflokka var búinn að boða alls konar inngrip inn í umhverfi sjávarútvegsins. Samfylkingin var búin að boða tvöföldun. Ég held hún hafi nú talað um að gera það á tíu árum. Þetta er mjög bratt hvernig þetta er gert. Samráðið er lítið við greinina og það er ekki bara verið að hækka veiðigjöld, það er verið að gjörbreyta ákveðnum strúktúr í viðmiði.“
Brot úr viðtalinu þar sem ofangreint kemur fram má sjá í spilaranum hér efst en áskrifendur Morgunblaðsins geta hroft á viðtalið í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.