Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um tvo aðila að stela úr verslun í miðborginni. Þegar starfsmenn höfðu afskipti af þeim réðust þjófarnir á starfsmennina og höfðu í hótunum við þá. Annar aðilinn var á vettvangi þegar lögreglu bar að garði og var hann handtekinn.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Alls eru 70 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Ökumaður var stöðvaður í akstri í miðborginni grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig með hníf meðferðis auk þess sem hann reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk tilkynningu um ofurölvi mann sem var að áreita fólk við verslun í hverfinu. Ekki var unnt að ræða við manninn eða koma honum heim sökum ástands og var hann því handtekinn. Við handtökuna fundust á manninum meint fíkniefni og var hann vistaður í fangaklefa.