Vilja halda gott partý: „Farið að minna á Tsérnóbyl“

Hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík hefur verið rifið að hluta.
Hjúkrunarheimilið Víðihlíð í Grindavík hefur verið rifið að hluta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Framhaldið er bjart. Nú er bara búið að fylla upp í síðustu sprunguna til Grindavíkur og ég tel að við séum örugg fram að áramótum ef miðað er við hvað innflæðið í kvikuhólfið er hægt,“ segir Ómar Davíð Ólafsson hjá Vélsmiðju Grindavíkur.

„Auðvitað kom bakslag í fólk í gær sem ætlaði sér að fara að máta sig við húsin sín í sumar, en vonandi breytist það á næstu vikum.“

Hann ræddi við mbl.is í Grindavík í dag, ásamt þeim Heiðari Hrafni Eiríkssyni og Elíasi Magnúsi Ólafssyni, um þeirra framtíðarsýn á búsetu í bænum eftir skammvinnt eldgos í gær.

Ómar Davíð Ólafsson, Heiðar Hrafn Eiríksson og Elías Magnús Ólafsson.
Ómar Davíð Ólafsson, Heiðar Hrafn Eiríksson og Elías Magnús Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flottir verðlaunagarðar orðnir að sinu 

Í ljósi þess hve kvikuinnflæðið er hægt leggur Heiðar til að fasteignafélagið Þórkatla, sem hefur umsjón með fasteignum í Grindavík, leyfi fólki að gista í húseignum sem það átti áður og hefur forkaupsrétt á.

„Það fer enginn annar inn í þessi hús. Þau eru mörg hver farin að láta á sjá og fólk vill eflaust koma og slá garðinn. Eins þarf að fara að þrífa húsin. Þó að sagan segi annað þá er stundum rok hérna og sjávarselta. Við þrifum alltaf húsin okkar tvisvar á ári og það þarf að fara að gera það aftur,“ segir Heiðar.

„Hér eru flottir verðlaunagarðar sem eru orðnir að sinu. Nú er þetta farið að minna á Tsérnóbyl og við viljum bara fá líf í bæinn,“ bætir Ómar við.

Þeir félagar voru hressir er blaðamann og ljósmyndara bar að …
Þeir félagar voru hressir er blaðamann og ljósmyndara bar að garði í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Höldum ball og partý 

Þeir félagar vilja fá líf í bæinn.

„Það er búið að girða af allar sprungur. Það býr fólk á Selfossi og það bannar börnunum sínum að fara niður að Ölfusá. Það er hægt að gera hérna líka.“

Segjast þeir hlakka til Sjómannadagsins 1. júní sem þeir telja tilvalinn dag til að færa líf í bæinn að nýju.

„Þetta verður kannski ekki eins hátíð og verið hefur og fólkið sem er ekki komið með húsin sín getur bara gist á tjaldsvæðinu. Við einbeitum okkur bara að gleðinni og höldum ball og partý,“ segir Heiðar og Ómar bætir við:

„Við látum ekkert slá okkur af laginu. Höldum í gleðina og fáum sem flesta Grindvíkinga með okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert