Áforma þéttingu með félagslegum íbúðum í Grafarvogi

Odd­vitar Sam­fylk­ing­ar, Pírata, Sósí­al­ista, Flokks fólks­ins og Vinstri grænna sem …
Odd­vitar Sam­fylk­ing­ar, Pírata, Sósí­al­ista, Flokks fólks­ins og Vinstri grænna sem mynda meirihlutann í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar meirihlutans í borgarráði Reykjavíkur samþykktu að veita vilyrði fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða á fyrirhuguðum þéttingarreitum í Grafarvogi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kusu á móti tillögunum.

Þetta kemur fram í fundargerð borgarráðs.

Meirihlutinn samþykkti að veita Félagsbústöðum vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að átta íbúðum á nýju þróunarsvæði við Hverafold 7. Á sama þróunarsvæði var samþykkt að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 16 íbúðum.

Allt að 52 félagslegar íbúðir við Sóleyjarima

Meirihlutinn samþykkti einnig að veita Bjargi íbúðafélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 18 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Starengi og vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 14 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Veghús.

Þá samþykkti meirihlutinn að veita Búseta húsnæðissamvinnufélagi vilyrði fyrir byggingarrétti á allt að 52 íbúðum á nýju þróunarsvæði við Sóleyjarima.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, höfnuðu öllum tillögum á meðan borgarráðsfulltrúar meirihlutans samþykktu þær allar.

Einar Þorsteinsson, borgarráðsfulltrúi Framsóknar, sat hjá við afgreiðslu.

Skipulagt „í mikilli andstöðu við íbúa“

„Hluti af þróun húsnæðisuppbyggingar í Grafarvogi eru reitir þar sem fyrirhugað er að byggja upp óhagnaðardrifið húsnæði í samstarfi við óhagnaðardrifin uppbyggingarfélög og tryggja þannig fjölbreyttum tekjuhópum og tekjulágum þak yfir höfuðið og aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu sem og búseturéttarlegu samhengi,“ sagði meðal annars í bókunum meirihlutans við allar tillögur.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu að áformin væru gerð þvert á vilja íbúa.

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggjast gegn lóðavilyrðinu enda ljóst að fyrirhuguð uppbygging og þétting byggðar í Grafarvogi hefur verið skipulögð í mikilli andstöðu við íbúa hverfisins. Betur færi á því að leggja fyrirhuguðum áformum og hefja samtalið við íbúa Grafarvogs frá grunni. Sannarlega mætti ráðast í hóflega uppbyggingu innan hverfisins, ekki síst til að svara þörfum eldri íbúa sem hefðu hug á að flytja úr stærri sérbýlum, en öll slík áform þarf að vinna af vandvirkni og í góðri sátt við umhverfið enda um rótgróið fullbyggt hverfi að ræða,“ sagði meðal annars í bókunum sjálfstæðismanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert