Landsréttur staðfesti í dag fangelsisdóm yfir erlendum manni á fertugsaldri fyrir kynferðisbrot gegn tveimur 13 og 14 ára stúlkum og fyrir að hafa í tvígang berað kynfæri sín á almannafæri.
Maðurinn hafði verið dæmdur tvívegis í héraði þar sem hann fékk átta mánaða og fjögurra mánaða dóm. Málin voru sameinuð í Landsrétti þangað sem maðurinn áfrýjaði málinu.
Ríkissaksóknari krafðist þyngri refsingar.
Í annarri ákærunni er manninum gert að hafa áreitt þrjár 13–14 ára stúlkur. Var hann sakfelldur fyrir tvö brotanna í héraði og fékk átta mánaða fangelsisdóm. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa berað sig á almannafæri og fékk aukalega fjögurra mánaða dóm.
Manninum er m.a. gert að hafa áreitt 13 ára stúlku kynferðislega, m.a. kysst hana á munninn og snert og nuddað kynfærasvæði hennar utanklæða þegar í anddyri byggingar í Reykjavík 2021. Stúlkan hafði verið í fylgd móður sinnar en var að henda tyggjói í anddyri byggingar. Þar hitti hún fyrir manninn. Stúlkan náði að koma sér undan. Maðurinn var dæmdur fyrir athæfið.
Hin málin snúa að tveimur fjórtán ára stúlkum en atvikin eru sögð hafa átt sér stað í verslun í Austurstræti í júní árið 2021.
Þar var maðurinn sýknaður af því að hafa klipið aðra stúlkuna í rassinn en dæmdur fyrir að hafa gripið um kynfærasvæði hinnar inni í versluninni. Atvikið náðist á myndband.
Þá var einnig staðfestur dómur þar sem hann var dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot. Beraði hann sig á almannafæri og handlék kynfæri sín.
Annars vegar beraði hann kynfæri sín á Háskólatorgi fyrir framan konu sem sat hinum megin við glugga. Hins vegar var hann við verslunina Mini Market þar sem hann spurði vegfarenda hvað klukkan væri áður en hann beraði kynfæri sín í beinu framhaldi.