„Þetta er sett fram sem auðlindagjald sem ferðaþjónustan eigi að borga, en það er enginn annar en almenningur sem á að greiða auðlindagjöld fyrir heimsóknir í náttúruperlur hér á landi. Þetta er gjald á fólkið sjálft sem er ekkert annað en skattlagning á einstaklinga fyrir aðgang að eigin landi,“ segir Vilhjálmur Árnason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið.
Leitað var eftir afstöðu hans til áforma ríkisstjórnarinnar um álagningu auðlindagjalda sem boðuð eru í fjármálastefnu stjórnarinnar sem kynnt var fyrir skemmstu. Í þingsályktunartillögu þar sem mælt er fyrir um slík gjöld kemur fram að á undanförnum árum hafi bæst við nýjar og stöndugar atvinnugreinar sem byggi afkomu sína á landsins takmörkuðu gæðum og er ferðaþjónustan m.a. nefnd í því sambandi. Í tillögunni er sú stefna ríkisstjórnarinnar kunngjörð að „gjaldtaka atvinnugreina byggist á sjálfbærum og réttlátum auðlindagjöldum sem renni að hluta til nærsamfélagsins“, segir þar.
Vilhjálmur er einnig formaður Þingvallanefndar sem hefur með málefni þjóðgarðsins á Þingvöllum að gera. Í 1. grein laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum segir m.a.: „Þingvellir við Öxará og grenndin þar skal vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga,“ og að hið friðlýsta land skuli vera undir vernd Alþingis „og ævinleg eign íslensku þjóðarinnar“.
Spurður hvort hann telji ríkinu heimilt að taka gjald af íslenskum þegnum sem heimsækja sína eigin eign sem Þingvellir eru skv. tilvitnaðri lagagrein, segir Vilhjálmur að munur sé á ríkiseign og þjóðareign. Engin heimild sé fyrir ríkið til að rukka auðlindagjald af íslenskum þegnum sem heimsæki Þingvelli. Ríkið hafi hins vegar vald til skattlagningar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag og í nýja Mogga-appinu