Engin umræða farið fram um viðbrögð Íslands

Hildur Sverrisdóttir og Daði Már Kristófersson fóru yfir tollamálin á …
Hildur Sverrisdóttir og Daði Már Kristófersson fóru yfir tollamálin á þingi í dag. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Eyþór

Ekki liggur fyrir um hvort Ísland taki þátt í hefndaraðgerðum Evrópusambandsins gegn tollum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. 

Þetta kom fram í svari Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Hildar Sverrisdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Viðskiptahalli nærtækasta skýringin

Hildur benti á að Ísland hefði sloppið vel við þá tolla sem Donald Trump boðaði í gærkvöldi, miðað við önnur ríki, og spurði Daða hvað gæti skýrt það.

Svaraði Daði að erfitt væri að spá fyrir um á hvaða forsendum Bandaríkjamenn tækju ákvarðanir, en líklega skýrðist það af viðskiptahalla Íslands gagnvart Bandaríkjunum.

„Það er markmið þessara aðgerða að draga úr viðskiptahalla Bandaríkjanna. Það mundi eðlilega skjóta nokkuð skökku við að ráðast á þau hagkerfi sem ekki leggja til hans,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherrann.

Ísland ekki höfuðból tollfrelsis

Þá tók Hildur aftur til máls og rifjaði upp að Bjarni Benediktsson, sem fjármála- og efnahagsráðherra árið 2014, hefði afnumið almenn vörugjöld á innflutning og ári síðar alla tolla á innflutning utan matvæla. Það hefði leitt til betri kjara fyrir íslensk heimili, neytendur og fyrirtæki. Því væri mikilvægt að viðhalda tollleysi á innflutningi til landsins.

„Nú hefur Evrópusambandið sagt að það sé tilbúið að ráðast í hefndartolla gegn Bandaríkjunum. [Þá] liggur beinast við að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort til greina komi að taka þátt í slíkum aðgerðum með Evrópusambandinu og vinda þannig ofan af ávinningi tollaafnáms og þá í beinu framhaldi hvort hæstvirtur ráðherra telji hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB í þessum efnum,“ spurði Hildur.

Daði Már svaraði að engin umræða hefði farið fram um hugsanleg viðbrögð Íslands en tók undir að hóflegir eða engir tollar væru neytendum til hagsbóta.

„Það er nú samt kannski rétt að árétta að Ísland er meðal þeirra þjóða í heiminum sem enn þá eru með frekar háa tolla og það kemur til vegna þess sem háttvirtur þingmaður nefndi, að við erum með nokkuð umfangsmikla tollvernd á landbúnaðarvörum.

Þannig að það er ekki þannig að Ísland sé eitthvert höfuðból tollfrelsis, þvert á móti þá stöndum við frekar illa í samanburði við önnur lönd hvað þetta varðar. Á því eru auðvitað skýringar. En varðandi viðbrögð okkar þá liggur ekkert fyrir um neitt slíkt,“ svaraði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert