Fjárfesting meiri en sem nemur hagnaði

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 0:00
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 0:00
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
    • Quality

    Gunnþór Ingva­son, for­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, tel­ur umræðu um of­ur­hagnað sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á mis­skiln­ingi byggða. Ekki sé hægt að skoða hagnaðartöl­ur án þess að setja þær í sam­hengi við und­ir­liggj­andi fjár­fest­ingu.

    Sem dæmi nefn­ir hann að Síld­ar­vinnsl­an hafi frá ár­inu 2014 hagn­ast um sjö­tíu millj­arða. Það hafi gengið vel, enda sé Síld­ar­vinnsl­an með mjög gott fólk, öfl­ug­an eig­enda­hóp og sterka stjórn á bak við sig.

    „Sjö­tíu millj­arðar, já, það er rosa­leg­ur pen­ing­ur. En hvernig hef­ur þess­um pen­ing­um verið ráðstafað? Er þetta rosa­leg­ur pen­ing­ur miðað við þá fjár­fest­ingu sem að baki ligg­ur?“ spyr Gunnþór og bend­ir á að Síld­ar­vinnsl­an hafi á sama tíma fjár­fest fyr­ir 79 millj­arða.

    „Við höf­um fjár­fest í skip­um fyr­ir nítj­án millj­arða. Við þurft­um að fjár­festa í skip­um til þess að búa til verðmæti meðal ann­ars úr mak­ríl. Ég hugsa að mak­ríll­inn væri ekki til umræðu hérna í veiðigjöld­um ef að grein­in hefði ekki fjár­fest. Þannig ger­ist þetta nú. Ef að hlut­haf­ar Síld­ar­vinnsl­unn­ar hefðu ekki ákveðið að setja stærst­an hluta af hagnaðinum áfram inn í fé­lagið, inn í fjár­fest­ingu, byggja það upp, þá væri ég ekk­ert viss um að þjóðin hefði verið að fá 9,4 millj­arða út úr starf­semi Síld­ar­vinnsl­unn­ar á síðasta ári.“

    Hann seg­ir Síld­ar­vinnsl­una ekki hafa verið að fjár­festa í öðrum grein­um.

    „Eins og pó­púl­ist­arn­ir tala um þetta, að það sé bara sjálfsagt að við borg­um meira því við séum að spreða pen­ing­um út og suður.“

    Bitn­ar á nærsam­fé­lög­um

    Gunnþór tel­ur að marg­feld­isáhrif af starf­semi sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja út um allt land séu gríðarleg.

    „Við í Síld­ar­vinnsl­unni erum búin að vera í mikl­um fram­kvæmd­um og vor­um að byggja og stækka fiski­mjöls­verk­smiðjuna í Nes­kaupstað. Það er auðvitað mikið verk­efni sem er nú að ljúka. En við erum búin að vera að kaupa þjón­ustu í heima­byggðinni síðustu ár af verk­tök­um og veiðarfæra­söl­um og fyr­ir­tækj­um í þjón­ustu fyr­ir 2,2 millj­arða síðustu árin.“

    Hann trú­ir ekki öðru en að stjórn­völd staldri við og svari ákalli þeirra sem og sveit­ar­stjórn­ar­manna og lands­manna.

    „Að menn greini aðeins bet­ur af­leiðing­arn­ar sem geta orðið af þessu og meti þetta aðeins upp á nýtt og segi ekki bara út í loftið: „Þetta hef­ur ekk­ert að segja af því að þið græðið svo mikið.” Ég vona að það verði end­ur­metið.

    Hann seg­ist ekki ætla að ganga svo langt að tala um upp­sagn­ir hér og nú, en hagræðing sé haf­in og hann ótt­ast að þær muni að óbreyttu bitna á nærsam­fé­lög­un­um.

    „Við erum ný­bú­in að ganga í gegn­um loðnu­brest og við erum búin að boða það að draga sam­an í öll­um fram­kvæmd­um og reyna að draga sam­an segl­in eins og við get­um. Auðvitað bitn­ar það því miður á okk­ar nærsam­fé­lög­um og það er bara óhjá­kvæmi­legt, það er hluti af þess­ari virðiskeðju. Ef við fáum ekki tekj­ur, eins og þegar ein loðnu­vertíð er í burtu, þá get­um við ekki borgað kostnað og þurf­um að draga hann það niður, það seg­ir sig sjálft. Og eins ef við fáum stór­auk­in gjöld á okk­ur, þá þurf­um við ein­hvers staðar að bregðast við," seg­ir Gunnþór.

    Brot úr þætt­in­um má sjá í spil­ar­an­um hér efst en áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins geta horft á viðtalið við Gunnþór í heild sinni með því að smella á hlekk­inn hér fyr­ir neðan.

    mbl.is
    Fleira áhugavert
    Fleira áhugavert