Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, telur umræðu um ofurhagnað sjávarútvegsfyrirtækja á misskilningi byggða. Ekki sé hægt að skoða hagnaðartölur án þess að setja þær í samhengi við undirliggjandi fjárfestingu.
Sem dæmi nefnir hann að Síldarvinnslan hafi frá árinu 2014 hagnast um sjötíu milljarða. Það hafi gengið vel, enda sé Síldarvinnslan með mjög gott fólk, öflugan eigendahóp og sterka stjórn á bak við sig.
„Sjötíu milljarðar, já, það er rosalegur peningur. En hvernig hefur þessum peningum verið ráðstafað? Er þetta rosalegur peningur miðað við þá fjárfestingu sem að baki liggur?“ spyr Gunnþór og bendir á að Síldarvinnslan hafi á sama tíma fjárfest fyrir 79 milljarða.
„Við höfum fjárfest í skipum fyrir nítján milljarða. Við þurftum að fjárfesta í skipum til þess að búa til verðmæti meðal annars úr makríl. Ég hugsa að makríllinn væri ekki til umræðu hérna í veiðigjöldum ef að greinin hefði ekki fjárfest. Þannig gerist þetta nú. Ef að hluthafar Síldarvinnslunnar hefðu ekki ákveðið að setja stærstan hluta af hagnaðinum áfram inn í félagið, inn í fjárfestingu, byggja það upp, þá væri ég ekkert viss um að þjóðin hefði verið að fá 9,4 milljarða út úr starfsemi Síldarvinnslunnar á síðasta ári.“
Hann segir Síldarvinnsluna ekki hafa verið að fjárfesta í öðrum greinum.
„Eins og pópúlistarnir tala um þetta, að það sé bara sjálfsagt að við borgum meira því við séum að spreða peningum út og suður.“
Gunnþór telur að margfeldisáhrif af starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja út um allt land séu gríðarleg.
„Við í Síldarvinnslunni erum búin að vera í miklum framkvæmdum og vorum að byggja og stækka fiskimjölsverksmiðjuna í Neskaupstað. Það er auðvitað mikið verkefni sem er nú að ljúka. En við erum búin að vera að kaupa þjónustu í heimabyggðinni síðustu ár af verktökum og veiðarfærasölum og fyrirtækjum í þjónustu fyrir 2,2 milljarða síðustu árin.“
Hann trúir ekki öðru en að stjórnvöld staldri við og svari ákalli þeirra sem og sveitarstjórnarmanna og landsmanna.
„Að menn greini aðeins betur afleiðingarnar sem geta orðið af þessu og meti þetta aðeins upp á nýtt og segi ekki bara út í loftið: „Þetta hefur ekkert að segja af því að þið græðið svo mikið.” Ég vona að það verði endurmetið.
Hann segist ekki ætla að ganga svo langt að tala um uppsagnir hér og nú, en hagræðing sé hafin og hann óttast að þær muni að óbreyttu bitna á nærsamfélögunum.
„Við erum nýbúin að ganga í gegnum loðnubrest og við erum búin að boða það að draga saman í öllum framkvæmdum og reyna að draga saman seglin eins og við getum. Auðvitað bitnar það því miður á okkar nærsamfélögum og það er bara óhjákvæmilegt, það er hluti af þessari virðiskeðju. Ef við fáum ekki tekjur, eins og þegar ein loðnuvertíð er í burtu, þá getum við ekki borgað kostnað og þurfum að draga hann það niður, það segir sig sjálft. Og eins ef við fáum stóraukin gjöld á okkur, þá þurfum við einhvers staðar að bregðast við," segir Gunnþór.
Brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér efst en áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á viðtalið við Gunnþór í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.