„Þetta er aðeins hluti af því sem við erum að gera og ætlum að bæta okkur enn frekar í – að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi og koma í veg fyrir stór tjón og bilanir,“ segir Brynja Ragnarsdóttir, forstöðukona þjónustu hjá Veitum.
Fyrirtækið hefur um hríð notað dróna með hitamyndavélum til að fljúga um götur og leita að mögulegum lekum í hitaveitulögnum neðanjarðar.
Brynja segir að lekaleitin sé einn mikilvægasti þátturinn í markmiði Veitna um fyrirbyggjandi viðhald.
„Við viljum greina leka áður en þeir stækka og valda tjóni,“ segir hún.
Hún bætir við að með því að finna leka snemma sé hægt að koma í veg fyrir að viðskiptavinir verði fyrir skyndilegu hitavatnsleysi.
Segir Brynja lagnir oft byrja að leka í litu magni áður en það sést með berum augum. Því komi drónarnir að góðum notum við að finna smærri lekana og þar að leiðandi koma í veg fyrir að ráðast þurfi í stórar aðgerðir.
Hún nefnir einnig að lekaleitin hafi fundið leka á snjóbræðslukerfum hjá íbúum.
„Það er sjálfsagður hluti af okkar þjónustu að láta íbúa vita þannig að hægt sé að bregðast við. Snjóbræðslukerfi sem ekki starfa eðlilega geta valdið skemmdum, sóað vatni og reynst mjög kostnaðarsöm.“