Grunnskólabörn í útigangi og sækja ekki skóla

Dagbjört segir vont að vita af börnum í útigangi vegna …
Dagbjört segir vont að vita af börnum í útigangi vegna úrræðaleysis. Samsett mynd

Þau mál sem barnaverndarþjónustur fá inn á borð til sín varða sífellt yngri börn, með þyngri vanda, sem sýna alvarlega áhættuhegðun. Ef ekki tekst að vinna á vandanum með fyrsta inngripi, sem felur í sér stuðning í nærumhverfinu, eru í raun ekki næg úrræði fyrir þessi börn eins og staðan er í dag. Fyrir vikið þyngist vandi barnanna enn frekar og hópurinn stækkar. 

Í yngsta hópnum, meðal barna í áhættuhegðun, eru börn á grunnskólaaldri sem sækja ekki skóla og eru jafnvel í útigangi.  

Þetta segir skrifstofustjóri barnaverndar í Kópavogi.

Töluvert hefur verið fjallað um það úrræðaleysi sem ríkir málefnum barna með fjölþættan vanda, hér á mbl.is síðustu mánuði, og hefur til að mynda umboðsmaður barna lýst yfir neyðarástandi í málaflokknum. Úrræðum hefur fækkað síðustu ár og þau sem eru í boði eru í raun algjörlega einsleit. 

„Staðan fyrir drengi í dag er mjög alvarleg“ 

Árið 2023 skilaði stýrihópur skýrslu um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda þar sem fram komu fjórtán tillögur að úrræðum sem talið var mikilvægt að koma á fót. Þá var einnig talað um bráðaaðgerð sem þyrfti að ráðast í með því að koma á fót úrræði fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda en ekki glíma við fíkniefnavanda. Skemmst er að segja frá því að ekkert af þessum fjórtán úrræðum hefur enn orðið að veruleika. 

„Úrræðaleysið er gríðarlegt og þetta er farið að taka sinn toll af barnaverndarþjónustum landsins. Það er erfitt að hafa úr litlu úr að moða og staðan er bara grafalvarleg. Þetta úrræðaleysi er flókið, það er lítið að hafa, fá pláss í boði og vandi barnanna orðinn mjög þungur þegar þau komast að,“ segir Dagbjört Rún Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri barnaverndar hjá Kópavogsbæ, í samtali við mbl.is. 

„Ég hef séð það á þessum tólf árum sem ég hef starfað í þessu að þeim úrræðum sem eru boði hefur bara fækkað og fækkað. Þetta eru bara örfá pláss. Staðan fyrir drengi í dag er mjög alvarleg, að það sé ekki opið meðferðarúrræði fyrir þá,“ segir Dagbjört, en ekkert langtímaúrræði hefur verið í boði fyrir drengi í heilt ár, eða frá því meðferðarheimilinu Lækjarbakka var lokaðvegna myglu. 

Stefnt er að því að opna Lækjarbakka aftur á nýjum stað í haust, í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en þangað til verður ekkert langtímaúrræði í boði fyrir drengi. Þeir drengir sem ljúka meðferð og greiningu í Blönduhlíð á Vogi, komast því hvergi að í langtímameðferð í framhaldinu, þurfi þeir á því að halda. Í samtölum við mbl.is hafa foreldrar og aðrir sem þekkja til viðrað miklar áhyggjur af því að drengirnir fari aftur beint í neyslu að meðferð lokinni, vegna þessa. 

Þetta ástand er að sliga alla“ 

Fyrsta inngrip þegar barn er farið að sýna mikla áhættuhegðun er að setja í gang svokallaða MST-fjölkerfameðferð sem fer fram á heimili fjölskyldunnar og þar koma að allir lykilaðilar í nærumhverfi barnsins. Slík meðferð hentar hins vegar ekki þegar vandi barnsins er orðinn mjög alvarlegur. 

„Stundum dugar MST bara fínt og það er nóg til að snúa við ákveðinni þróun, en ekki í öllum tilvikum. Það þarf bara meiri fjölbreytni í það sem er í boði og búið er að meta það. Við myndum gjarnan vilja að ríkið tæki mið af þeim skýrslum og að það væri settur einhver kraftur í þetta. Það vantar þessi stigskiptu úrræði sem búið er að greina fram og til baka,“ segir Dagbjört. 

Foreldrar barna sem hafa þurft að bíða lengi eftir meðferðarúrræði, og mbl.is hefur rætt við, hafa lýst algjörri bugun og vonleysi gagnvart kerfinu, sem þeim finnst hafa brugðist börnunum sínum. Til að mynda hafi verið gefnar vonir um úrræði í sjónmáli sem ekki hafi staðist. 

„Maður skilur þessa foreldra sem eru í mikilli örvæntingu og líður illa. Þetta er ekki bara barnið sem er í vanda, það er öll fjölskyldan sem er undir og systkini þessara barna. Foreldrarnir eiga erfitt með að sinna þessu, þau eru algjöru úrræðaleysi og upplifa að þau séu að koma að lokuðum dyrum. Maður skilur það mjög vel þegar lítið er í boði. Við erum að reyna að bjóða upp á ýmislegt en oft er það bara ekki nóg,“ segir Dagbjört og heldur áfram: 

„Þetta ástand er að sliga alla, þetta er líka að sliga alla barnaverndarstarfsmenn sem eru með þessar fjölskyldur í fanginu að reyna að styðja við, reyna að styðja við bæði foreldrana og börnin. Þetta er líka að sliga skólana, af því börnin eru með flókinn vanda innan skólans og jafnvel ekki skólatæk. Þannig þetta er snúin staða.“ 

Börn sem voru ekki á kortinu fyrir ári síðan

Aðspurð hvort vandinn sé að þyngjast eða börnunum að fjölga, segir Dagbjört bæði vera að gerast. Svo eigi úrræðaleysið sinn þátt í því hvernig þróunin hefur orðið.  

„Bæði er vandinn að þyngjast hjá börnunum og þetta eru fleiri börn. Hvað sem veldur því er kannski erfitt að segja nákvæmlega til um. Það á bara eftir að skoða það betur með rannsóknum, hvaða áhrif hefur Covid til dæmis haft og allt það á félagsfærni barna og svo framvegis. Það eru margþætt áhrif þarna, en ég held þetta sé blanda.“ 

Þróunin hafi verið með þeim hætti síðustu árin að sífellt yngri börn glími við þyngri vanda og verið sé að grípa þau of seint. 

„Þegar þau koma inn með þennan vanda þá er hann svolítið hraður. Það er upplifun okkar núna. Þau eru að koma inn ung og með, ekki endilega stigvaxandi vanda eins og það var, heldur er vandinn að þyngjast hratt,“ útskýrir Dagbjört. 

 „Börn sem voru ekkert endilega á kortinu fyrir ári síðan en eru bara komin inn hratt,“ bætir hún við. 

Á mbl.is og í Morgunblaðinu hafa birst viðtöl við foreldra tveggja barna sem höfðu slíka sögu að segja. Börnin fóru frá því að vera annars vegar fyrirmyndanemandi og hins vegar afreksbarn í íþróttum yfir í mikla neyslu fíkniefna og afbrotahegðun á skömmum tíma.

Dagbjört segir þó að verða að hafa í huga að það hafi mikið breyst á síðustu árum í umhverfi barnanna. Til dæmis með tilkomu samfélagsmiðla. 

„Tengslanet barna fer víða, þetta er ekki lengur bundið við hverfið eða skólann, þau eru úti um allt. Það hefur auðvitað líka áhrif, samfélagsmiðlar og fleira.“ 

Foreldrar stundum hræddir við viðbrögð barnanna 

En hvað er hægt að gera fyrir þessi ungu börn sem koma inn með jafn þungan vanda og raun ber vitni? Hvað er það sem grípur þessi börn? 

„Hvert mál er auðvitað einstakt, það er engin ein regla. En við reynum að byrja á að vinna málið í nærumhverfinu með því að setja inn MST. Það er yfirleitt fyrsta skrefið þegar það er komin mikil áhættuhegðun. Það er alltaf best að reyna fyrst að vinna málið heima. Það er ekki endilega alltaf barninu fyrir bestu að vista það utan heimilis eða á meðferðarheimili sem er löng bið í,“ segir Dagbjört. 

„Auðvitað þurfum við líka að huga að því, ef við erum með ungt barn með áhættuhegðun, hvort það á heima inni á neyðarvistun. Það á ekkert alltaf við og ekki það sem við myndum vilja sjá sem fyrstu skref. Heldur er það eitthvað sem gripið er til í algjörri neyð. Við viljum frekar styðja foreldra í uppeldishlutverkinu og að þeir ráði við að setja börnunum sínum mörk. Stundum er ákveðin hræðsla við það líka, foreldrar hræddir við viðbrögð barna sinna.“ 

Dagbjört segir það alltaf vænlegast til árangurs ef það næst samvinna með bæði foreldrum og barni. Einnig að geta unnið með vanlíðan barnsins og reyna að finna út hvað er að valda henni. 

Vont að vita af börnum í útigangi

„Nú erum við búin að vera í þessari farsældarvinnu og samþættingu og innleiðingu á því. Það tekur tíma þangað til að við förum að sjá árangur af því. Það er frábært að við séum að setja púður í að grípa þessi börn fyrr og ég held að allir barnaverndarstarfsmenn fagni því, en það má ekki gleyma þeim börnum sem eru komin á þennan stað,“ segir Dagbjört. 

„Þau munu vera rosalega dýr fyrir samfélagið ef við grípum þau ekki. Foreldrar eru líka að detta úr vinnu því þeir eiga erfitt með að sinna vinnunni sinni ásamt því að vakta börnin sín og veita þeim meðferð. Þau geta ekki verið í öllum hlutverkum, þau þurfa stuðning kerfisins. Þetta ætti ekki að vera svona flókið í mínum huga.“ 

Hún bendir á að ekkert megi út af bregða, eins og staðan sé í dag, til að allt fari á enn verri veg. Það hafi sýnt sig við brunann á Stuðlum í október þar sem barn lést. Síðan þá hefur ekki verið hægt að bjóða upp á hefðbundna meðferð og greiningu á Stuðlum og plássin þar hafa að mestu leyti verið nýtt fyrir gæsluvarðhald og afplánun barna og unglinga. 

„Þetta stóð tæpt fyrir, en vandinn bara vex og vex. Vandi þessara barna sem ætti að vera komin einhvers staðar inn, þau eru ekki að komast inn þannig vandinn vex og hópurinn stækkar. Það er vont að vita af börnum sem eru kannski ekki í skóla, eru bara í útigangi, þetta er mjög flókið.“  

Að sögn Dagbjartar er hópur grunnskólabarna á þeim stað. 

Kerfið kannski komið að þolmörkum

„Kannski þurfum við bara að fara að dusta rykið af einhverju gömlu, eins og þegar útideildin var upp á sitt besta. Lögreglan er að stíga fast inn í þetta og er meira að elta hópamyndunina. Það er það sem virkar, sýnilegri löggæsla í hverfunum. Meiri kontakt við þessa krakka, bæði í gegnum sterka félagsmiðstöð, sem Flotinn er, og lögreglu. Þetta þarf að vera samvinna barnaverndar, Flotans og lögreglu, að klukka í hópinn.“ 

Hún segir að verið sé að reyna að ná utan um hópinn með þessari samvinnu, en hvort það sé strax farið að skila árangri, sé erfitt að segja til um. 

„Kannski er kerfið bara komið að þolmörkum núna?”  

Það þurfi að ráðast strax í uppbyggingu fleiri og fjölbreyttari úrræða. 

„Það er alltaf þetta mat, það er ekki hægt að steypa alla í sama formið. Það eiga ekki allir heima inni á Blönduhlíð. Börnin eru með mismunandi þarfir, mismunandi áhættuhegðun, það er mismunandi sem þau þarfnast.“ 

Félagsráðgjafar brenna út í unglingamálum 

Líkt og fram hefur komið reynir ástandið verulega á starfsfólk barnaverndar og ýmsu hefur þurft að breyta til að koma í veg fyrir að fólk hreinlega brenni út í starfi vegna skorts á meðferðarúrræðum fyrir börn. 

Fyrir tólf árum, þegar Dagbjört fór að vinna í barnaverndarmálum, sáu til að mynda svokallaðir unglingaráðgjafar um mál unglinga sem komu inn til barnaverndar. Þeir félagsráðgjafar voru sérhæfðir í slíkum málum og gátu einbeitt sér að þeim. Í dag er ekki hægt að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti. 

„Þó ég sé í dag með félagsráðgjafa sem hafa brennandi áhuga á þessum málaflokki og á unglingamálum, þá er það ekki leggjandi á tvo eða þrjá starfsmenn að vera eingöngu í þessum málum, úrræðaleysið er það mikið. Það er það sem brennir starfsfólkið út. Að sitja með ungmenni í vanda og foreldri þess, sem er ofboðslega hrætt um það sem framundan er, og það eru engar lausnir í sjónmáli. Það er mjög íþyngjandi fyrir þann félagsráðgjafa sem er að sinna málinu, útskýrir Dagbjört. 

„Við höfum horfið frá því að vera með sér skilgreinda aðila í unglingamálum, yfir í að deila þessu. Annars klára ég starfsfólkið mitt á núll einni. Það er erfiðast að vita hvað þarf, en það er ekkert sem tekur við. Það er mjög lýjandi fyrir barnaverndarstarfsmann að sitja með það.“ 

Dagbjört segir börn með fjölþættan vanda oft hafa verið börnin sem enginn hafi viljað vita af. Nú sé vandi þessara barna hins vegar orðinn svo umfangsmikill og áberandi að samfélagið geti ekki litið undan. 

„Við sem samfélag eigum að hafa fulla burði til að geta náð utan um málefni barna með fjölþættan vanda. Við búum yfir mikilli þekkingu og höfum margt fagfólk. Nú þarf bara að forgangsraða í þágu velferðar barna. Og það þarf að vera samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert