„Þetta er náttúrulega bara enn ein ástæðan til að gleðjast yfir því að fara ekki að álpast inn í Evrópusambandið,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í samtali við mbl.is um tollahækkanir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem skella nú á Evrópu af fullum þunga eins og forsetinn nýkjörni hefur boðað í ræðu og riti frá því í janúar.
„Þetta styrkir stöðu okkar hlutfallslega í samkeppni við önnur lönd um innflutning til Bandaríkjanna, en þetta er alls ekki heppilegt fyrir heimsviðskiptin og hagvöxt um allan heim, ekki er hægt að halda því fram að þetta sé skref fram á við í þeim efnum, en Bandaríkin eru í svo sterkri stöðu verandi sjálfum sér nóg um flest að þetta er erfiðara fyrir flesta aðila aðra,“ segir formaðurinn.
Heldur hann áfram með þeim orðum að eigi hann að ráðleggja ríkisstjórn Íslands eða forsætisráðherra mæli hann með því að ráðherra fylgi fordæmi annarra ráðherra á Norðurlöndum og „heyri karlinum. Tala vinsamlega við hann, hann mun kunna að meta það, benda á að við höfum átt í sérstöku sambandi við Bandaríkin lengi. Bandaríkin hafi fyrst þjóða viðurkennt fullveldi Íslands, Bandaríkin hafi tekið að sér varnir landsins áður en þau urðu aðili að seinni heimsstyrjöldinni, það sé lífslínan eins og Jónas frá Hriflu kallaði það,“ segir Sigmundur.
Landfræðileg staða Íslands sé nú orðin aftur í miðju heimsmálanna og ráðleggur Sigmundur að íslensk stjórnvöld bendi Trump á að Bandaríkin séu í plús í vöruskiptajöfnuði gagnvart Íslandi og hvort ekki komi til greina að nota Ísland sem sýnidæmi.
„Þannig að bandarísk stjórnvöld geti sýnt öðrum þjóðum að þeir sem vilji stunda viðskipti við Bandaríkin og kaupa af þeim, ekki síður en flytja til þeirra, uppskeri verðlaun og séu menn til í gagnkvæm viðskipti sé hægt að falla frá tollum,“ segir Sigmundur Davíð og kastar að lokum fram varnaðarorðum til íslenskra stjórnvalda.
„Umfram allt, ekki láta Evrópusambandið draga Ísland inn í mótvægisaðgerðir Evrópusambandsins gegn Bandaríkjunum, það væri algjörlega „fatalt“, það þarf að forðast umfram allt,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins að lokum.