Mál Íslendinganna í rannsókn: Mun taka tíma

Tveir voru handteknir hér á landi í síðasta mánuði vegna …
Tveir voru handteknir hér á landi í síðasta mánuði vegna tengsla við vefsvæði sem notað var fyr­ir mynd­efni af kyn­ferðis­legri mis­notk­un barna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingarnir tveir sem voru handteknir hér á landi vegna tengsla við vefsvæði sem notað var fyrir myndefni af kynferðislegri misnotkun barna sitja ekki í gæsluvarðhaldi en þeir voru handteknir 10. mars síðastliðinn.

Greint var frá því í gær að lögreglan í Bæjaralandi í Þýskalandi hefði náð að leysa upp vefsvæðið, sem finna mátti á hinum svokallaða myrkravef, en um alþjóðlega aðgerð var að ræða sem náði til 38 landa.

Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn á kynferðisbrotasviði lögreglunnar, segir við mbl.is að mennirnir hafi verið handteknir 10. mars. Tekin hafi verið skýrsla af mönnunum og þeim síðan sleppt í kjölfarið. Gerð var húsleitum á heimilum mannanna og lagt hald á muni.

Spurð hvort mál mannanna hafi verið sent til ákærusviðs segir Bylgja svo ekki vera.

„Þetta mál er bara í rannsókn sem mun taka sinn tíma,“ segir hún.

Í febrúar var Íslendingur handtekinn í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir Europol en hann er grunaður um að hafa keypt aðgang að og dreift barnaníðsefni sem búið var til með aðstoð gervigreindar.

Bylgja segir að rannsókn lögreglu í máli mannsins sé enn í fullum gangi. Hún segir að hafin sé skoðun á myndefninu að hluta til en rannsóknin sé mjög tímafrek. Það muni taka sinn tíma að afrita gögn, skoða myndefnið og greina hvað sé barnaníðsefni og hvað ekki.

Spurð hvort mennirnir tveir sem handteknir voru í síðasta mánuði tengist því máli segir hún að svo sé ekki að minnsta kosti að svo stöddu en enginn grunur leiki á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert