Meginorsök banaslyss á Reykjanesbraut við Straumsvík í janúar í fyrra, þar sem Nissan-jepplingur og Volvo-vöruflutningabíll rákust saman, er talin vera sú að ökumaður jepplingsins missti stjórn á honum.
Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa, sem telur að jepplingurinn hafi verið kominn um 80 til 90 sentimetra inn á gagnstæðan vegarhelming þegar slysið varð, eða á miðju akbrautarinnar.
Slysið varð á móts við álverið í Straumsvík þann 30. janúar á síðasta ári. Ökumaður jepplingsins lést átta dögum síðar.
Ein akrein var í hvora átt þar sem slysið varð, og er enn, þar sem unnið er við að leggja viðbótarakbraut samhliða þessum vegarkafla Reykjanesbrautar. Áætluð verklok eru í júní á þessu ári.
Nefndin hefur eftir vitni, sem ók á eftir jepplingnum í um sjö til átta bíllengda fjarlægð, að bifreiðin hafi verið að fjarlægjast vitnið sem ók að sögn á 70 til 75 kílómetra hraða.
Ekki var hægt að ákvarða frekar ökuhraða jepplingsins og engar upplýsingar um áreksturinn komu úr árekstrareftirlitskerfi bifreiðarinnar þegar reynt var að sækja þau.
Ökumaður vörubifreiðarinnar kveður aðdragandann hafa verið stuttan. Honum hafi ekki fundist höggið vera mikið en hann missti stjórn á vörubifreiðinni eftir áreksturinn og hún stöðvaðist í snjóskafli utan vegar.
„Sennilegt er að ökumaður hafi misst stjórn á bifreiðinni og að helmingur bifreiðarinnar hafi verið kominn yfir á gagnstæða akrein þegar hún skall framan á vinstra framhorni vörubifreiðar sem kom á móti,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
Einnig er bent á að hjólbarðar jepplingsins hafi mögulega átt hlut að máli.
„Hjólbarðar fólksbifreiðarinnar voru ónegldir vetrarhjólbarðar og misslitnir að framan, sem líklega hafði áhrif á akstureiginleika bifreiðarinnar.“
Loks var hálka á veginum og er tekið fram að leiða megi að því líkur að það hafi haft áhrif á möguleika ökumanns til að hafa stjórn á bifreiðinni. Óvíst er þá um virkni fræstra rifflna eftir miðlínu þar sem snjór og krapi var á veginum.
Nefndin tekur að lokum fram að það sé krefjandi að aka bifreið á hálum vegi.
„Sérstaklega þarf að passa upp á hraðann en því meiri hraði í hálku því erfiðara er að stjórna bifreið. Hemlunarvegalengd eykst til muna. Snögg hemlun, skyndileg hreyfing í stýri og þungt ástig á inngjöfina geta fljótt valdið stjórnleysi. Fara þarf með gát í beygjur og gæta að því að auka eða minnka hraða varlega.
Slíkt getur komið í veg fyrir að bifreið missi rásfestu, skriki til eða renni og dregur þannig um leið úr hættu. Þegar dregið er úr hraða við akstur í hálku þarf að slaka á inngjöfinni tímanlega og beita hemlum mjúklega. Við nauðhemlun á snævi þöktum eða hálum vegum getur ökutækið hæglega runnið til en nauðsynlegt er að halda hæfilegri fjarlægð frá næsta ökutæki fyrir framan.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hvetur ökumenn til þess að vera vakandi fyrir hálku og við hvaða aðstæður hún myndast helst. Ökumenn ættu að vera sérstaklega á varðbergi þegar lofthiti er undir 4°C og vegur virðist blautur.“