„Mjög ólíklegt“ að skjálftinn hafi fundist

Skjálftinn er flokkaður sem erlendur skjálfti enda var hann nær …
Skjálftinn er flokkaður sem erlendur skjálfti enda var hann nær Kanada og Bretlandseyjum. Samsett mynd

Veðurstofunni hafa ekki borist neinar tilkynningar vegna skjálftans sem varð á Reykjaneshrygg á þriðja tímanum í dag. Þá er talið mjög ólíklegt að Íslendingar hafi fundið fyrir honum, þar sem hann átti sér raunar stað nær Kanada og Bretlandseyjum.

Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir skjálftann, sem mældist 6,9 að stærð, flokkast sem erlendan skjálfta.

Fólk á Reykjanesi mögulega fundið fyrir minni skjálftum

Eftir að lesendur lýstu því sumir að þeir hefðu fundið fyrir skjálftanum ákvað mbl.is að hafa samband við Veðurstofuna.

„Það er mjög ólíklegt að hann hafi fundist hér á landi,“ segir Minney.

Hún bendir þó á að fólk á Reykjanesi gæti hafa fundið fyrir minni skjálftum sem enn eru í gangi þar. Minney nefnir sérstaklega skjálfta, um 3 að stærð, sem varð rétt fyrir klukkan 15.

Veðurstofan hefur þó ekki fengið neinar tilkynningar um hann heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert