Sitja uppi með uppgreiðslugjaldið

ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs.
ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Sverrir

Lands­rétt­ur hef­ur staðfest niður­stöðu héraðsdóms um að ÍL-sjóði hafi verið heim­ilt að krefja lán­tak­end­ur um upp­greiðslu­gjald á lán­um sem þeir höfðu hjá sjóðnum. 

Dóm­ur þess efn­is féll í Lands­rétti í dag.

Um­rædd lán voru upp­greidd en snéri ágrein­ing­ur­inn að því hvort ÍL hefði verið heim­ilt að inn­heimta upp­greiðslu­gjald. Skil­mál­ar um upp­greiðslu­gjald fylgdu lög­um um neyt­endalán sem sett voru fyr­ir 2013 en eft­ir þann tíma var skil­mál­um breytt þannig að mun þrengri skorður voru sett­ar á upp­greiðslu­gjald þegar lán var gert upp.

Í sjö mál­um sem öll féllu á sama veg í Lands­rétti í dag höfðu lán­tak­end­ur yf­ir­tekið eldri lán sem hvíldu á fast­eign­um. Voru þau öll tek­in fyr­ir árið 2013 eða áður en ný lög um neyt­endalán tóku gildi og voru sam­kvæmt skil­mál­um gamla Íbúðalána­sjóðsins.

Fóru lán­tak­end­ur í mál við ÍL-sjóð þar sem þeir töldu að skil­mál­ar sem giltu eft­ir árið 2013 ættu að gilda um lán þeirra. Á þetta féllst Lands­rétt­ur ekki frek­ar en héraðsdóm­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert