Bílastæðasjóður Reykjavíkur hefur innleitt hjá sér rafrænt eftirlit. Bíll með myndavélabúnaði er nú ekið um á gjaldskyldum svæðum og getur hann skannað númeraplötur þeirra sem hafa lagt í stæði borgarinnar.
Sendi Bílastæðasjóður frá sér tilkynningu um eftirlitið þann 1. apríl.
Kristín Þórdís Ragnarsdóttir, sérfræðingur hjá Bílastæðasjóði, segir bílinn hafa verið tekinn í notkun 18. mars og nefnir að í raun sé um sömu tækni að ræða og finnist í bílastæðakjöllurum víðs vegar.
Bíllinn skanni númeraplötur og fletti upp hvort búið sé að greiða fyrir bílastæðið.
„Ef ekki, þá kemur það náttúrulega til athugunar hér innanhúss í kerfi sem er á bak við þennan búnað og þar fara stöðuverðir yfir og skoða allar myndir,“ segir Kristín og nefnir að með hinu uppfærða eftirliti sé markmiðið að auka skilvirkni þess.
„Markmiðið er ekki að reyna að ná sem flestum, heldur ná utan um gjaldsvæðið sem er mjög stórt.“
Hún segir að í raun sé um sama verkferil að ræða og áður, en að nú sé einfaldlega meiri sjálfvirkni.
Hvernig hefur þetta gengið, svona fyrstu tvær vikurnar?
„Við erum svona að fínpússa verkferlana og ýmislegt. Það er ekki alltaf hægt að sjá P-merkin (stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk) á myndum. Þá þarf að senda stöðuverði á staðinn. En ég held að við séum svona að ná utan um þetta,“ segir Kristín.
„Svo erum við með íbúakortasvæði þar sem fólki er bara heimilt að leggja á ákveðnu svæði og það er líka skoðað.“
Þá eru einnig teknar umhverfismyndir sem Kristín segir að séu teknar fyrir rekjanleika brota. Fólk sem fái á sig gjald geti séð myndirnar sendi það inn endurupptökubeiðni.
„Það var þannig líka áður en það sem er betra núna er að allar manneskjur og bílar í kring eru blörraðar, þannig að óviðkomandi bifreiðar og manneskjur sjást ekki á myndinni.“
Þá segir hún margt vera til bóta.
„Auðvitað verður okkur eitthvað á í messunni fyrst en fólk hefur verið duglegt að senda inn endurupptökubeiðnir og við reynum að vinna þær hratt.“
Um myndavélabúnaðinn sjálfan segir Kristín hann eilítið öðruvísi en búnaðinn sem landsmenn fengu að kynnast fyrir mörgum árum er bílar fyrirtækisins Google keyrðu um á götum landsins til að ná myndefni.
Bíll Bílastæðasjóðsins sé í raun með átta myndavélum. Fjórar þeirra geti skannað bílnúmer beggja vegna götunnar samtímis og svo séu hinar fjórar myndavélarnar notaðar til að taka umhverfismyndirnar.