Steinþór nýr sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs

Steinþór Einarsson, nýr sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar.
Steinþór Einarsson, nýr sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Róbert Reynisson

Steinþór Einarsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar. Hann hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra stjórnsýslu á menningar- og íþróttasviði frá árinu 2023 ásamt því að vera staðgengill sviðsstjóra, en hann hefur verið starfandi sviðsstjóri frá nóvember 2024.

Þetta segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustu í 25 ár

Segir þar enn fremur að Steinþór sé með íþróttakennarapróf sem grunn- og framhaldsskólakennari frá íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni sem og diplómu í markaðs- og útflutningsfræði frá Háskóla Íslands.

Þá starfaði hann sem íþróttakennari við Foldaskóla í þrjú ár og tók svo til starfa hjá íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar þar sem hann var skrifstofustjóri rekstrar- og þjónustu í 25 ár.

Ráðgefandi hæfnisnefnd skipuð

„Steinþór hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra stjórnsýslu á menningar- og íþróttasviði frá árinu 2023 en meðfram störfum sínum hefur hann verið staðgengill sviðsstjóra til margra ára og starfandi sviðsstjóri frá nóvember 2024. Auk þess má geta að hann hefur verið formaður félags stjórnenda hjá Reykjavíkurborg og verið fulltrúi Reykjavíkurborgar í alþjóðlegu samstarfi á sviði íþrótta- og tómstundamála,“ segir í tilkynningunni.

Var starf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar auglýst laust til umsóknar í lok janúar síðastliðinn þar sem fyrrverandi sviðsstjóri, Eiríkur Björn Björgvinsson, var kjörinn á Alþingi. Alls bárust 54 umsóknir um starfið en tólf umsækjendur drógu umsóknir sína til baka. Segir í tilkynningunni að í samræmi við reglur um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður var skipuð ráðgefandi hæfnisnefnd.

Vel liðinn og öflugur stjórnandi

„Í lokaskýrslu ráðgefandi hæfnisnefndar til borgarráðs segir að það sé mat hæfnisnefndar að Steinþór Einarsson sé best til þess fallinn að taka við starfi sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs Reykjavíkurborgar. Samkvæmt umsögn ráðgefandi hæfnisnefndar byggir það meðal annars á yfirgripsmikilli þekkingu hans á málaflokkum sviðsins og því að „hann hefur, í gegnum árin, leitt fjölda stefnumótandi verkefna og hefur skýra framtíðarsýn á málaflokka menningar og íþrótta, mikilvægi jafnvægis þeirra á milli og samlegðartækifæri.“ Þá kom fram í umsögnum að Steinþór væri vel liðinn og öflugur stjórnandi sem ætti auðvelt með að fá fólk með sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert