Ísland og Noregur sleppa betur frá tollum Bandaríkjanna en aðrar Norðurlandaþjóðir sem fá á sig 20% toll þar sem þær eru í Evrópusambandinu.
Í gærkvöldi tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti 10% lágmarkstoll á allar innfluttar vörur til Bandaríkjanna og enn hærri gagntolla á fjölda ríkja.
Ísland er ekki á lista yfir þjóðirnar sem fá á sig gagntolla og því verður 10% tollur lagður á allar innfluttar vörur frá Íslandi. Vörur frá Noregi sæta 15% tolli.
Aftur á móti verður 20% tollur á innfluttar vörur frá Evrópusambandinu og þar með fá allar Norðurlandaþjóðir nema Ísland og Noregur á sig 20% toll. Sama gildir um Eystrasaltsríkin sem tilheyra Evrópusambandinu.
Bretland, sem tilheyrir heldur ekki Evrópusambandinu, fær á sig 10% toll eins og Ísland.
Sviss og Liechtenstein eru í EFTA ásamt Íslandi og Noregi en eru ekki í Evrópusambandinu.
Þessar þjóðir sleppa hins vegar ekki við háa gagntolla Bandaríkjamanna en innfluttar vörur frá Sviss sæta nú 31% tolli og innfluttar vörur frá Liechtenstein 37%.