Umræðum frestað: Gögnum ábótavant

Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra,
Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, mbl.is/Karítas

Umræðu um fjármálaáætlun hefur verið frestað fram í næstu viku á Alþingi vegna nýs verklags við fjármálaáætlun sem engum var kynnt. Ljóst er að ekki liggur fyrir hvernig ríkisstjórnin hyggst ráðast í boðaða hagræðingu, að sögn þingflokksformanns Framsóknar. 

Hvorki eru mælanleg markmið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar né mælikvarðar fyrir öll málefnasvið fjármálaáætlunar. Þetta eru hins vegar gögn sem hafa á undanförnum árum fylgt með fjármálaáætlun. 

„Þau eru búin að gefa það út að þau ætli að hagræða um 110 milljarða, það kemur hvergi fram hvar þau ætla að hagræða eða með hvaða hætti. Ekki heldur hvernig forgangsröðunin er varðandi útdeilingu fjármuna til þessara verkefna,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, í samtali við mbl.is.

Gögnunum ekki bætt við fyrir umræður í næstu viku

Eftir að Stefán vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar, hafði vakið athygli á þessu á Alþingi fyrr í dag tók við mikil umræða um það hvort að fjármálaáætlunin stangaðist á við lög um opinber fjármál. 

Þingflokksformenn funduðu með forseta Alþingis og komust að þeirri niðurstöðu að bíða með umræður um fjármálaáætlun fram í næstu viku, mögulega þriðjudag, svo að þingmenn gætu undirbúið sig í takti við þær upplýsingar sem eru í fjármálaáætluninni.

Ekki verður þó bætt við þessum gögnum í fjármálaáætlun heldur er hugmyndin, að sögn Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra, sú að gögnin komi með ársskýrslum ráðherra.

Gögn um hagræðingu „ekki til“

Þannig þið fáið ekki gögnin fyrir umræðurnar í næstu viku?

„Þau eru búin að gefa það út að gögnin eru væntanlega ekki aðgengileg. Þau eru ekki til, augljóslega, víst að þau geta ekki afhent okkur. Við vorum búin að reyna biðja um það að fá þessi gögn fyrir umræðuna í næstu viku, en það er ekki,“ segir Ingibjörg. 

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. Ljósmynd/Aðsend

Ingibjörg segir að undanfarin ár hafi þessi gögn legið fyrir svo hægt sé að rýna raunverulega stefnu ríkisstjórnarinnar. 

„Hæstvirtur fjármála og efnahagsráðherra viðurkenndi það í dag í óundirbúnum fyrirspurnum að markmið og mælikvarðar fyrir málefnasvið eru ekki í þessari áætlun eins og var áður og að þeim beri að skila samkvæmt lögunum. Á öllum málefnasviðunum er búið að taka út flest ef ekki öll töluleg markmið, allir mælikvarða teknir út,“ sagði Ingibjörg á þinginu í dag.

Vinnubrögðin fyrir „neðan allar hellur“

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir vinnubrögðin vera fyrir neðan allar hellur. 

„Þetta kom okkur á óvart og við brugðumst við með því að óska eftir aðkomu forseta. Við erum sátt við þessa lendingu og að okkar sjónarmiðum var mætt. En okkur finnast þessi vinnubrögð auðvitað vera fyrir neðan allar hellur,“ segir Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert