Viðsnúningur í rekstri þjóðkirkjunnar

Fyrr á árinu var einnig greint frá því að traust …
Fyrr á árinu var einnig greint frá því að traust til þjóðkirkjunnar hefði aukist verulega meðal Íslendinga. mbl.is/Hjörtur

Eftir viðvarandi hallarekstur þjóðkirkjunnar undanfarin ár batnaði reksturinn árið 2023 og ársreikningurinn fyrir árið 2024 staðfestir algjöran viðsnúning.

Ársreikningur síðasta árs sýnir rekstrarafgang upp á 426 milljónir króna og þar af eru tekjur af eignasölu 210 milljónir króna. Afgangur af reglulegri starfsemi var rúmlega 100 milljónir og vaxtatekjur nema ríflega 100 milljónum.

Árið 2020 var hall­inn 687 millj­ón­ir, árið 2021 var hann 307 millj­ón­ir og 2022 58 millj­ón­ir. Árið 2023 var aftur á móti skilað afgangi sem nam 166 milljónum króna.

Fram kemur í greinargerð með ársreikningum að það sé ekki markmið í sjálfu sér í rekstri þjóðkirkjunnar að skila afgangi. Þó sé mikilvægt að safna ekki skuldum og nota afganginn í að byggja upp varasjóð.

Brýnt að reksturinn sé sjálfbær

„Brýnasta verkefnið í rekstri þjóðkirkjunnar er að reksturinn sé sjálfbær og skili helst afgangi svo hægt sé að byggja upp varasjóð, sem er mikilvægt til að bregðast við mögulegum áföllum og óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum,“ segir í greinargerðinni.

Handbært fé í ársbyrjun var 1.179 milljónir en var komið í 1.624 milljónir í árslok. Handbært fé hækkaði því um 445 milljónir á síðasta ári. Handbært fé í ársbyrjun 2023 var 841 milljón og hefur því tvöfaldast á tveimur árum.

Laun og launatengd gjöld eru langstærsti útgjaldaliðurinn en þessi liður hækkar milli ára. Launakostnaður er um það bil 71% af heildarútgjöldum. Árið 2024 var fjöldi stöðugilda 155 að meðaltali samanborið við 157 árið á undan.

Ekki einu jákvæðu fréttirnar á árinu

Þetta eru ekki einu jákvæðu fréttirnar fyrir þjóðkirkjuna á þessu ári en í febrúar kom út könnun frá Gallup þar sem í ljós kom að traust til þjóðkirkjunnar hefði aukist mest á milli ára þegar litið er til lykilstofnana í samfélaginu.

Traust til þjóðkirkj­unn­ar mæl­ist 43% sem er 16 pró­sentu­stiga aukn­ing frá ár­inu 2024.

Traust til þjóðkirkj­unn­ar hef­ur ekki mælst meira frá ár­inu 2009 en Guðrún Karls Helgu­dótt­ir tók við embætti bisk­ups í júlí á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert