Rigningar auka hættu

Hætta á grjóthruni, skriðum og sandfoki á landinu.
Hætta á grjóthruni, skriðum og sandfoki á landinu. Kort/mbl.is

„Það hafa nokkrum sinnum fallið steinar út á veginn undir Steinahlíð, en ég veit ekki til þess að það hafi áður fallið á bíla,“ segir Svanur Geir Bjarnason, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði, og vísar þar til banaslyssins sem varð á þjóðveginum undir Steinahlíð sl. mánudag þar sem þrjár erlendar konur voru á ferð í bíl og ein þeirra lét lífið í slysinu.

Hann segist telja að fólk kunnugt staðháttum gæti alveg eins hafa orðið fyrir slysi þarna, því að erfitt sé að verjast því ef grjót er komið af stað.

„Við erum að skoða það að reisa varnarvegg í Steinahlíð sem gæti stöðvað grjót á leið niður hlíðina,“ segir Svanur og bendir á að óvanalegt sé að skriður falli á vegi á Suðursvæði, það sé helst við Krýsuvíkurveg og Grafningsveg efri. „Síðan er möguleiki á grjóthruni á Kaldadalsvegi á milli Þingvalla að Uxahryggjarvegi um Meyjarsæti,“ segir hann og bætir við að miklar rigningar auki á þessa hættu.

Viðvarandi hætta fyrir vestan

Þegar kortið hér fyrir ofan er skoðað sést að mesta hættan á grjótskriðum er á Vestfjörðum og einnig Austfjörðum. Kristinn Lyngmo, hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir grjóthrun mikið vandamál fyrir vestan.

Nefnir hann staði eins og Kirkjubólshlíðina, Súðavíkurhlíð, Sjötúnahlíð, Skógargötu í Hestfirði og Skötufjörð. Þar lenti vörubíll á stórgrýti og var mesta mildi að ekki fór verr. „Við búum við þessa hættu hér fyrir vestan,“ segir Kristinn og bætir við að vonast sé eftir því að farið verði í gerð Súðavíkurganga.

„Siglufjarðarvegurinn frá Fljótum er í vöktun, um 15 km kafli,“ segir Gunnar Helgi Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Norðurlandi. „Þar er vegurinn að síga og það er farin eftirlitsferð daglega til að kanna aðstæður. Við erum líka með lokunarhlið á þessum kafla ef regnmagn fer upp fyrir ákveðið mark,“ segir hann og tekur undir orð Kristins um bið eftir göngum, en heimamenn bíða eftir Fljótagöngum.

Á Austfjörðum eru margir staðir merktir á kortið og menn þekkja orðið hættuna frá Seyðisfirði eftir aurskriður síðustu ára. Sveinn Sveinsson á Reyðarfirði nefnir veginn yfir Hellisheiði eystri og síðan Njarðvíkurskriður á leiðinni til Borgarfjarðar eystri. Það séu sérstaklega viðsjárverðir vegir. Einnig nefnir hann stakar brekkur á Reyðarfirði, Vattarnesskriður við Fáskrúðsfjörð og Kambanesskriður við Breiðdalsvík og Þvottár- og Hvalnesskriður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert