Hilmar Guðlaugsson, múrari og fv. borgarfulltrúi í Reykjavík, lést 2. apríl, 94 ára að aldri.
Hilmar fæddist 2. desember 1930 í Reykjavík og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Guðlaugur Þorsteinsson, sjómaður, fisksali og hafnsögumaður, og Guðrún Jónsdóttir húsmóðir. Blóðfaðir Hilmars var Svafar Dalmann Þorvaldsson.
Hilmar gekk í Ingimarsskólann við Lindargötu og útskrifaðist þaðan sem gagnfræðingur árið 1948. Hann lærði múrverk og útskrifaðist úr Iðnskólanum í Reykjavík 1954, og var á samningi hjá afa sínum, Jóni Eiríkssyni. Árið 1958 var honum boðið til Bandaríkjanna til að fullnema sig í flísa- og mósaíklögnum.
Hilmar var alla tíð virkur í félagsmálum samhliða vinnu. Hann var formaður Múrarafélags Reykjavíkur 1965-1973 og síðar fyrsti formaður nýstofnaðs Múrarasambands Íslands 1973-1977. Átti um tíma sæti í miðstjórn ASÍ. Hann kom m.a. að kaupum múrarafélaganna á jörðinni Öndverðanesi í Grímsnesi árið 1968 en þar er nú kominn 18 holu golfvöllur og mikil orlofshúsabyggð. Var Hilmar útnefndur heiðursfélagi Múrarafélags Reykjavíkur.
Árið 1972 hætti Hilmar í múrverkinu og hóf störf fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var framkvæmdastjóri verkalýðsráðs og sinnti því starfi í 28 ár, eða þar til hann fór á eftirlaun. Árið 1982 var hann kjörinn borgarfulltrúi í borgarstjórn Reykjavíkur, átti sæti í byggingarnefnd borgarinnar í 30 ár, þar af formaður í 12 ár. Einnig var hann í stjórn verkamannabústaða, síðar húsnæðisnefnd Reykjavíkur og formaður þar í fjögur ár.
Hilmar var formaður Knattspyrnufélagsins Fram í átta ár og sæmdur gullmerki og silfurkrossi félagsins fyrir vel unnin störf. Einnig sæmdur gullmerki KSÍ og ÍSI og fékk merki KRR með lárviðarsveig. Þá var hann félagi í Oddfellowreglunni frá árinu 1967 og á seinni árum virkur í starfi Félags eldri borgara í Grafarvogi, þar af formaður í fjögur ár.
Eiginkona Hilmars var Jóna Guðbjörg Steinsdóttir, f. 1928, d. 2019. Börn þeirra eru Steingerður, f. 1949, Guðlaugur Rúnar, f. 1953, og Atli, f. 1959. Barnabörnin eru níu talsins, langafabörnin 17 og tvö langalangafabörn.