Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að fyrirætluð aukin gjaldtaka á sjávarútveginn, auk annarra ákvarðana fyrri ríkisstjórnar vegi að atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.
Þetta kemur fram í viðtali við hann og Ragnar Sigurðsson, kollega hans í Fjarðabyggð, á vettvangi Spursmála.
Sveitarfélög sem byggja afkomu sína í ríkum mæli á starfsemi sjávarútvegsins vilja skýrari svör frá meirihlutanum á Alþingi um það hvaða áhrif hann telji að tvöföldun veiðigjalda á útgerðarfélög muni hafa á byggðir landsins.
Um þetta eru þeir Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, og Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, sammála. Sá síðarnefndi bendir á að algjört samráðsleysi hafi einkennt undirbúninginn að frumvarpinu sem lagt var fram í samráðsgátt og hefur nú tröllriðið allri umræðu í íslenskum stjórnmálum síðustu daga.
Gylfi bendir á að sveitarfélögin á landsbyggðinni hafi átt í vök að verjast. Það eigi því miður ekki aðeins við um þetta mál heldur einnig aðra gjaldtöku sem fyrri ríkisstjórn hafi dengt á starfsemi á þeirra vettvangi. Þar nefnir hann sérstaklega svokölluð innviðagjöld sem lögð voru á skemmtiferðaskip og að þau hafi verið lögð á með skömmum fyrirvara. Sömuleiðis niðurfellingu virðisaukaskatts á leiðangursskip sem hafi lagt leið sína í minni hafnir, meðal annars á Patreksfirði og í Flatey, en svo einnig stighækkandi gjöld á laxeldið sem verið hefur í miklum vexti á Vestfjörðum. Segir Gylfi þetta mjög bagalegt.
Í viðtalinu bendir Ragnar á að sú verðmætasköpun sem verði til á Austfjörðum sé úr öllu samhengi við þann mannfjölda sem þar býr. Í Fjarðabyggð eru launatekjur á hvern íbúa enda langhæstar, sé það borið saman við önnur svæði. Hann segir að fyrirætlanir stjórnvalda vegi að þessu og þeim möguleikum sem sjávarútvegsfyrirtækin á svæðinu hafa til þess að efla starfsemina enn frekar og fjárfesta til framtíðar.
Viðtalið við Gylfa og Ragnar má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: