Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að EFTA-ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) tryggi að staða þeirra á innri markaði Evrópusambandsins (ESB) sé virt, þó að þau séu ekki í tollabandalagi ESB.
Sömuleiðis þurfi að gæta þess að enginn misskilningur verði um stöðu landsins í tollastríði ESB og Bandaríkjanna, en Evrópusambandið svaraði verndartollum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta með refsitollum.
„Ég get alveg tekið undir það að það væri alvarlegt ef viðbrögð Evrópusambandsins myndu til dæmis toga okkur inn, það er að segja við myndum verða fyrir gagnkvæmnistollum,“ segir Kristrún í viðtali við Morgunblaðið.
Sömu gætni gagnvart tengslum við ESB gætti hins vegar ekki í orðum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í viðtali við spænska stórblaðið El País í gær.
„Vonandi verðum við líka saman innan Evrópusambandsins,“ sagði hún um samleið Íslands og Spánar og taldi að það þyrfti „ekki mikið“ til.
Forsætisráðherra telur hins vegar ástæðulaust að grípa til sérstakra ráðstafana vegna tolla Trumps og hefur meiri áhyggjur af afleiddum áhrifum, sem ekki séu enn fram komin.
Þannig telur hún ekki tilefni til þess að endurskoða fjármálaáætlun þótt forsendur kunni að hafa breyst, mikilvægara sé að halda kúrsi, senda ekki skilaboð um að áætlun stjórnvalda standist enga ágjöf.
Spurð hvort þetta högg á útflutningsatvinnuvegi sé ekki ástæða til þess að leggja til hliðar áform um tvöföldun veiðigjalda og nýjar álögur á ferðaþjónustu segir Kristrún það óþarfa.
Eftir því var tekið að í ávarpi sínu á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) minntist Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra lítillega á verndartolla Trumps, en sagði ekkert um viðbrögð stjórnvalda. Hún vék í ávarpinu stuttlega að hækkun veiðigjalda, en setti hana ekki ekki í samhengi við fyrirsjáanlegar afleiðingar tolla Trumps.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.