„Fólk sem vann fyrir mig í rektorsframboði mínu heyrði daglega: Ég ætla ekki að kjósa enn eina konuna. Það að ég er kona var ekki að vinna með mér hjá öllum,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir sem nýlega var kjörin rektor Háskóla Íslands, en hún er í ítarlegu viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Spurð um helstu áherslumál segist Silja Bára að sig langi til að styðja við fjölbreytileikann í skólanum. Hún vill einnig uppfæra kennsluhætti.
„Það er fjöldinn allur af kennurum sem eru að gera frábæra hluti en hjá sumum er kennslan afgangsstærð. Svo er hluti af því að skapa samfélag að nemendum finnist þeir þurfa að koma í tíma. Það dugar ekki að lesa bara bækurnar, heldur eiga þeir að vera þátttakendur í námssamfélaginu sem við reynum að skapa þeim. Starfsfólkið á sömuleiðis að finna tilgang og mikilvægi í því að vera á staðnum og taka þátt – þótt stundum geti auðvitað verið gott að vinna heima eða á kaffihúsi. Háskóli er fyrst og fremst samfélag og það skiptir mig miklu máli að hlúa að samfélaginu sem hér er.“
Kraftlyftingar og saumaskapur eru meðal áhugamála Silju Báru. Hún segist hafa byrjað að sauma út eftir að ráðist var á hana í Bandaríkjunum.
Hún rekur þá sögu í viðtalinu: „Ég kom að manni í glugganum í íbúð minni í Los Angeles. Ég veit ekki hver ásetningur hans var því hann náðist ekki. Hann komst ekki inn heldur lagði á flótta eftir að henda í mig grjóti. Ég fékk höfuðáverka og þurfti að fara í mikla þjálfun til að geta notað hægra augað aftur. Ég náði að hringja í sjúkrabíl, vissi ekki mikið af mér en var svo heppin að ég var með það mikilli rænu að ég gat sagt að ég væri með tryggingar. Ég fór á besta spítalann sem var í boði, sem háskólinn minn rak, og fékk alveg framúrskarandi umönnun. Læknirinn var reyndar mjög svekktur að ná ekki að jafna dæld á enninu, sem ég ber enn. Síðan tók við sálfræðimeðferð og sjónmeðferð. Það var nokkurra ára verkefni og ég fór að þjálfa hægra augað með útsaumi, sem er mikil nákvæmnisvinna. Þannig byrjaði ég að sauma út og dunda mér enn við það af og til.”
Ítarlegri umfjöllun er að finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.