„Þetta eru langveik börn. Þannig að okkur þykir ótrúlega miður ef að hvert og eitt foreldri þurfi að leita að því hvert eigi að fara næst með barnið sitt,“ segir Sif Huld Albertsdóttir, formaður Breiðra brosa.
Upp er nú komin sú staða að enginn kjálkaskurðlæknir er tiltækur til að sinna börnum sem fæðast með skarð í vör og/eða tanngarði.
Árlega fæðast um fimm til sjö börn hér á landi með þennan fæðingargalla. Hvert tilfelli þeirra er einstakt og þurfa börnin á sérhæfðri og samfelldri þjónustu að halda frá fyrsta degi.
„Þetta eru fá börn á ári og þar af leiðandi er erfitt að vera með sérfræðinga sem eru sérhæfðir í þessum aðgerðum,“ segir Sif í samtali við mbl.is, en aðgerðin sem um ræðir er svokölluð kjálkafærsla og er ein af stærri aðgerðum sem flest börn sem fæðast með skarð í vör og tanngarði þurfa á að halda.
Aðgerðin hefur hingað til verið gerð af kjálkaskurðlækni, sem er núna að hætta með aðgerðina. Því þurfa foreldrar að leita til sjúkratrygginga vilji þeir koma börnum sínum í aðgerðina.
Krefst félagið þess að brugðist verði tafarlaust við og sett á fót sérstöku og sérhæfðu þverfaglegu teymi sem hafi það hlutverk að veita þessum börnum og fjölskyldum þeirra örugga þjónustu og samfellu alla leið.
Þá sé nauðsynlegt að slíkt teymi hafi einnig sterkar tengingar við erlenda sérfræðinga, svo hægt sé að tryggja áframhaldandi aðgerðir og þjónustu sem ekki verði hægt að framkvæma innanlands.
„Við höfum tekið samtalið við fyrrum heilbrigðisráðherra og teymi hjá honum um það að setja á laggirnar teymi fyrir þessi börn inni á Landspítala þar sem það væri mjög skýrt hverjir væru í teyminu,“ segir Sif og nefnir að í teyminu þyrftu t.d. að vera tannréttingasérfræðingur og sérfræðingur í lýtalækningum, en þeir spila stóran þátt í lífi barna með skarð í vör og tanngarði.
Þannig gæti teymið verið milliliður á milli foreldra og sjúkratrygginga þegar kæmi að því að sinna börnunum.
Þá segir Sif að teymi fyrrum heilbrigðisráðherra hafi tekið vel í hugmynd félagsins á sínum tíma, en að því miður hafi málið svo aldrei farið lengra.
Hún segir að í raun sé verið að kalla eftir því að börn með skarð í vör og tanngarði hljóti sömu þjónustu og önnur langveik börn, sem virðast fá meira utanumhald frá kerfinu.
„Við erum bara rosalega sér á báti hvað varðar allt. Við erum einhvern veginn alltaf að berjast um eitt og svo þegar það er búið þá er það annað. Núna erum við komin þangað að við þurfum bara hjálp við að ýta þessu áfram og reyna að sýna að börnin okkar séu einstök á sinn hátt.“
Hún segir foreldra barna með skarð oft fá að heyra að hægt sé að laga skarðið, sem Sif segir vissulega rétt, en ítrekar að oft geti það tekið um tuttugu ár eða jafnvel lengur, sem sýni hvað veikindin geta verið langvinn.
Stjórn Breiðra brosa sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla í gær þar sem kallað er eftir hinu sérstaka og þverfaglega teymi. Sif segir að yfirlýsingin hafi svo einnig verið send á heilbrigðisráðuneytið síðdegis þar sem óskað var eftir fundi.
Hún segir stjórn félagsins vera tilbúna til að leiða og klára málið með heilbrigðisráðuneytinu til að foreldrar sem eiga börn með skarð í vör og tanngarði þurfi ekki sífellt að vera að berjast við áskoranir og geti einbeitt sér að því að vera einfaldlega foreldrar barna sinna.
„Af því það er svolítið það sem við erum að gera núna. Við erum alltaf að berjast við einhverjar vindmyllur og alltaf að benda á eitthvað klikk í kerfinu.“
„Ég skil það alveg að það er erfitt að vera með eitt teymi sem sérhæfir sig bara í þessum börnum því þetta eru svo fá börn á ári. En það verður samt að vera eitthvað utanumhald,“ segir Sif að lokum.