Ríkissaksóknari hefur óskað eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar vegna hryðjuverkamálsins svokallaða.
Þetta staðfestir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sindra Snæs Birgissonar. Hann, auk Ísidórs Nathanssonar, hafa verið sýknaðir af ákæru um undirbúning hryðjuverka bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti.
Dómur féll í Landsrétti fyrir um mánuði síðan. Sagði í dóminum að ekki hafi verið „slegið föstu“ að mennirnir hafi verið að undirbúa hryðjuverk.
Þá voru dómar þeirra fyrir stórfellt vopnalagabrot mildaðir, Sindri var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og Ísidór 15 mánuði.
Dómarar Hæstaréttar ákvarða hvort málið verði tekið til meðferðar.