Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að óvissa verði í alþjóðaviðskiptum svo lengi sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er við völd. Áhrif af tollum hafi þegar haft áhrif á lífeyrissjóði á Íslandi.
Trump upplýsti á fimmtudag um þá tolla sem landið ætlar að leggja á innfluttar vörur frá hinum og þessum ríkjum. Fyrstu tollaaðgerðirnar tóku í gildi í gær.
Tollar á vörur frá Íslandi nema 10% og sluppum við því nokkuð vel samanborið við aðrar þjóðir. Þar má nefna Evrópusambandið sem fær 20% tolla og Víetnam sem fær 46% tolla.
Áhrifa fór strax að gæta á hlutabréfamörkuðum um allan heim og nú er uppi mikil óvissa í alþjóðaviðskiptum.
„Við sjáum að hlutabréfamarkaðurinn er að fara niður, þannig að lífeyrissjóðirnir verða fyrir tjóni,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
„Þannig að þetta er alltumlykjandi.“
Hlutabréf um víða veröld hafa fallið, þar á meðal á Íslandi, þar sem úrvalsvísitala íslensku kauphallarinnar (OMXI15) hefur lækkað allverulega á síðustu dögum.
„Tíu prósenta tollur á okkur hefur alveg áhrif, en það á eftir að koma í ljós hvort tollar verði dregnir til baka á einhverjum punkti,“ segir hann.
„Bandaríkjamenn sjá fram á að peningarnir sem þeir voru búnir að safna til að senda börnin í skóla eru minna virði vegna þess að hlutabréfamarkaðurinn fer niður. Lífeyrissjóðirnir tapa, þannig að fólk á erfitt með að fara á eftirlaun,“ segir hann enn fremur og bætir við:
„Allt þetta er þá að valda óánægju heima við. Og við eigum eftir að sjá hvort þetta verði ekki til þess að hann dragi þetta til baka.“
Það er í raun óljóst hvort tollarnir séu komnir til að vera og hafa misvísandi upplýsingar fengist frá ráðamönnum í Washington, en jafnvel þó Trump-stjórnin ákveði að draga í land hefur óvissa þegar skapast vegna þessa útspils.
„Hún ein getur skemmt mjög mikið,“ segir Gylfi um óvissuna. „Jafnvel þótt hann dragi allt í land er hann búinn að valda svo miklum usla.“
Á 20. öld færði stór hluti bandarískra fyrirtækja framleiðslu sína til Kína. Lesendur kannast þess vegna eflaust við hina víðfrægu „Made in China“-merkimiða.
Svo varð Kína dýrara framleiðsluland, m.a. vegna viðskiptastríðs sem hófst við Bandaríkin árið 2018, og þá fluttu fyrirtæki mörg framleiðslu sína frá Kína til Suðaustur-Asíu, þar á meðal Víetnam.
En nú hefur Trump lagt 46% tolla á vörur frá Víetnam.
„Og það þýðir að fyrirtæki sem eru búin að fjárfesta í Víetnam hugsa: Það er kannski ekki gott að fjárfesta hér,“ segir Gylfi og bætir við að jafnvel þótt Trump dragi tollana til baka geti fjárfestar aldrei verið handvissir um að þeir komi aldrei aftur.
„Þessi fyrirsjánaleiki í alþjóðaviðskiptum og regluverki er farinn meðan hann er við völd.“
Tilgáta Trump-stjórnarinnar er sú að framleiðendur muni í auknum mæli velja að framleiða vörur innan Bandaríkjanna fremur en að flytja þær inn vegna tollanna.
Spurður hvort eitthvað sé til í þeim hugmyndum Trumps svarar Gylfi að óvíst sé hvort áhrifin verði jákvæð.
Hann tekur þó fram að flutningur bandarískrar framleiðslu til annarra landa hafi bitnað verulega á lægstu stéttum í Bandaríkjunum. Ævilíkur hvítra Bandaríkjamanna sem ekki hafa háskólapróf séu samhliða því farnar að styttast, þar sem fólk leiti í auknu mæli til áfengis og eiturlyfjaneyslu. Úr því umhverfi kemur J.D. Vance varaforseti, eins og skrifað var um í ævisögu hans, Hillbilly Elegy.
„Svo við getum sagt að þarna hefur hann eitthvað til síns máls,“ segir Gylfi sem gerir aftur á móti athugasemd við útfærslu á þessum áformum Trumps.
„Það er óvíst hvort þetta hafi jákvæð áhrif þegar upp er staðið,“ segir Gylfi, og nefnir að iPhone, snjallsími Apple, gæti hækkað allverulega í verði ef tæknirisinn veltir kostnaðaraukningunni yfir á neytandann.
Reuters greindi frá því á dögunum að verð á nýjasta iphone gæti numið 2.300 Bandaríkjadölum (300 þús. kr.), sem væri 43% hækkun.
Stjórnvöld í Kína hafa nú lagt gagnkvæma hefndartolla á Bandaríkin sem taka gildi á miðvikudag. Gylfi segir þess vegna að útflutningsgreinar í Bandaríkjunum horfi fram á minni eftirspurn og nefnir í því samhengi útflutning landbúnaðarvara til Kína.
En eins og Gylfi nefnir margoft þá er mikil óvissa uppi um næstu skref. Það sem Trump segir eða gerir næst getur haft veruleg áhrif á alþjóðahagkerfið.