Í ár rennur öll sala góðgerðarpítsu Dominos í minningarsjóð Bryndísar Klöru.
Góðgerðarpítsan er árlegt samstarfsverkefni Domino's og Hrefnu Rós Sætran. Sala pítsunnar hefst á morgun, mánudaginn 7. apríl og stendur til 10. apríl.
„Það er ómetanlegt að Domino’s láti allt söluandvirðið renna til sjóðsins en ekki einungis ágóðann. Að fá sér Bryndísarpizzu, hefur stóran boðskap því þannig minnumst við Bryndísar Klöru og sameinumst í að gera samfélagið betra í hennar nafni,“ er haft eftir Birgi Karli Óskarssyni, föður Bryndísar Klöru.
Auk góðgerðarpítsunnar verða seldar bleikar svuntur með nafni og merki minningarsjóðsins í Kringlunni dagana 7.-13. apríl, eða á meðan birgðir endast.
Góðgerðarpítsan verður í boði á öllum stöðum Dominos á landinu og inniheldur meðal annars pepperóní, mortadella-skinku, burrata-ost og pistasíur.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður til að heiðra líf Bryndísar Klöru, með það að markmiði að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.