Reykjavíkurborg tók þá stefnumarkandi ákvörðun fyrir rúmum áratug að atvinnustarfsemi skyldi víkja af Ártúnshöfða og við Elliðaárvog og íbúðir yrðu byggðar í staðinn.
Nokkrir byggingarreitir hafa verið skipulagðir. Íbúðir hafa risið nú þegar á sumum þeirra eða eru í byggingu á öðrum reitum. Áformaðar eru allt að 8.000 íbúðir á Ártúnshöfða og þar munu búa um 20 þúsund manns.
Undanfarnar vikur hefur verið til kynningar í skipulagsgáttinni tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Ártúnshöfða, svæði 7A, sem staðsett er við Breiðhöfða 3-5. Um árabil hefur starfsemi Steypustöðvar BM Vallár verið á þessum reit. Sú starfsemi mun flytjast annað í nokkrum áföngum.
Sérstaða reitsins er sú að þar er að finna glæsilegan lystigarð sem nefnist Fornilundur. Þessi garður hefur eiginlega verið hálffalin perla í iðnaðarhverfinu. Fornilundur verður varðveittur og opinn almenningi.
Byggðarmynstur á lóðinni mun myndast af þremur mismunandi húsformum sem verða 4-7 hæða byggingar.
Í áfanga 1 er gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum með valkvæðri verslun og þjónustu á 1. hæð við Breiðhöfða. Byggingarmagn nýbygginga verður 16.240 fermetrar (m2).
Í samræmi við áform Reykjavíkurborgar um félagslega blöndun verður sú kvöð á lóðinni að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.
Heildarmarkmið við skipulag svæðisins er að þétta byggð og nýta land og innviði borgarinnar betur með sjálfbærni að leiðarljósi, segir í deiliskipulagskynningu sem unnin er af THG arkitektum og Landslagi.
Bílastæðafjöldinn í tillögunni byggist á samgöngumati sem unnið er af Verkís. Þar kemur fram að gera þurfi ráð fyrir alls 464 bílastæðum og 1.224 hjólastæðum.
Fornalund á að varðveita og ekki má raska svæðinu innan afmörkunar hans og ekki er leyfilegt að byggja innan reitsins. Trjágróður innan reitsins verður verndaður.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 3. apríl. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.