Tvær táningsstúlkur voru handteknar fyrir stórfelldan fíkniefnainnflutning á Keflavíkurflugvelli fyrir viku. Þær flugu til Íslands frá Þýskalandi og eru með evrópskt ríkisfang.
Önnur þeirra er sautján ára að verða átján, og því undir lögaldri, en hin er fædd árið 2005 og verður tvítug á þessu ári.
Þær voru handteknar á Keflavíkurflugvelli 30. mars fyrir innflutning á 20.000 fölsuðum Oxycontin-töflum.
„Þær komu inn i landið frá Þýskalandi,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is, og bætir við að þær séu báðar með evrópskt ríkisfang.
Úlfar segir að rannsókn málsins sé unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld.
Gæsluvarðhald yfir konunum er í gildi þangað til á morgun en Úlfar gerir ráð fyrir að lögreglan óski eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Aðspurður segir Úlfar í raun ekkert flækjustig sem fylgi því að önnur kvennanna sé undir lögaldri í sambandi við rannsóknina sjálfa.
Þær séu þó vistaðar með ólíkum hætti. Sú yngri er til að mynda ekki í gæsluvarðhaldi í fangelsi, ólíkt þeirri eldri.
Manstu eftir svona ungum einstaklingum í svona stórfelldu fíkniefnainnflutningsmáli?
„Ekki í fljótu bragði en við erum oft með fólk í höndunum sem er lögráða en undir tuttugu ára aldri, það kemur fyrir.“