Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir að ráðleggingar til HSÍ um að tveir umspilsleikir kvennalandsliðsins í handbolta gegn Ísrael verði spilaðir fyrir luktum dyrum helgist af vinnu greiningardeildar. Mikill hiti og neikvæð umræða sé í kringum leikina vegna ástandsins á Gasasvæðinu.
„Við gerum öryggismat fyrir svona viðburði og greiningardeild metur það sem svo að ráðlagt sé að hafa enga áhorfendur og að auglýsa hann ekki. Við finnum fyrir því að það er mikil ólga í kringum þennan viðburð. Ráðleggingin er því til þess gerð að hægt sé að tryggja öryggi leikmanna og áhorfenda, og að leikurinn geti farið fram án truflunar,“ segir Sigríður.
HSÍ tilkynnti fyrr í dag að leikirnir yrðu spilaðir án áhorfenda og að þeir yrðu ekki auglýstir. Vísaði sambandið til ráðleggingar rls.
Er einhver sérstök umræða sem þið eruð að vísa til þegar talað er um ólgu í tengslum við þennan viðburð?
„Við vitum að það er reiði út í Ísrael og við óttumst að hún gæti birst með einhverjum hætti í tengslum við þessa leiki. Þetta er ráðlegging af okkar hálfu en ekki fyrirmæli. Mat okkar fólks er byggt á fyrirliggjandi umræðu og upplýsingum,“ segir Sigríður Björk.
Hafið þið einhverja ástæðu til að ætla að einhver hafi eitthvað illt í huga í tengslum við landsleikina?
„Nei, það er ekki þannig að það sé eitthvað tiltekið sem við óttumst. Ráðleggingin byggir bara á þessari ólgu og að þessi atburður verði nýttur til að koma á framfæri einhverri óánægju í garð stjórnvalda í Ísrael.“