Órói á Torfajökulssvæðinu hefur aftur sótt í sig veðrið eftir að hafa dottið niður í gær. Sérfræðingar fylgjast grannt með þróuninni, sem tengist líklegast breytingum í háhitakerfi á svæðinu.
Aukinn órói mældist einnig um hádegi í gær en datt niður skömmu síðar. Síðustu klukkustund hefur óróinn aftur farið stígandi, að sögn sérfræðings.
„Við erum að sjá ákveðinn óróa á svæðinu eins og gerðist á laugardag. Við teljum þetta vera tengt breytingu á háhitasvæðinu,“ segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Auk þess hafa nokkrir skjálftar gert vart við sig á svæðinu síðustu klukkustund, sumir yfir 1 að stærð, samkvæmt vef Veðurstofunnar.
Að sögn Minneyjar stendur atburðurinn enn yfir og Veðurstofan heldur áfram að fylgjast með þróun mála. Aðspurð segist hún þó ekki vera tilefni til þess að búast við eldgosi að svo stöddu.
„Við erum ekkert að túlka þetta á einn eða annan hátt akkúrat núna. Sérfræðingarnir fá að túlka þetta betur á morgun. En við erum að fylgjast með stöðunni og sjá hvað gerist.“
Síðasta gos í Torfajökli varð árið 1477 og myndaði þá Laugahraun og Námshraun. Sumarið 2023 mældist landris í Torfajökulseldstöðinni en lítið fréttnæmt hefur gerst í þeim efnum síðan þá.